Gert til að auðvelda fasteignakaup

Fyrsta fasteign, nýtt úrræði ríkisstjórnarinnar til þess að styðja við kaup á fyrstu íbúð, er rökrétt framhald af leiðréttingunni sem komið var á fót á haustmánuðum 2013. Þetta kom fram í ávarpi Sigurðar Inga Jóhannssonar forsætisráðherra þegar Fyrsta fasteign var kynnt í Kaldalónssal Hörpu.

Um er að ræða frumvarp um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð og verður það lagt fyrir nú í upphafi þings. Sigurður segir að með þessu nýja frumvarpi verði fasteignakaup gerð auðveldari og afborganir léttari. Er þetta jafnframt fyrsta alvarlega skrefið til þess að draga úr vægi verðtryggingarinnar að sögn Sigurðar Inga.

Hann segir að með nýja frumvarpinu verði hægt að lækka greiðslubyrgði lána verulega og að hann voni og trúi að úrræðið muni nýtast þúsundum nýrra fasteignakaupenda á hverju ári.

Í upphafi þings verður jafnframt lagt fram frumvarp um takmörkun verðtryggðra jafngreiðslulána. Að sögn Sigurðar Inga er það frumvarp í samræmi við þá stefnu ríkisstjórnarinnar að breyta flestum verðtryggðum lánum í óverðtryggð.

mbl.is