Rukka ekki gjald vegna mótmæla

Frá mótmælum á Austurvelli.
Frá mótmælum á Austurvelli. mbl.is/Golli

Ekki þarf að greiða sérstakt gjald skv. gjaldskrá Reykjavíkurborgar fyrir afnot af borgarlandi vegna mótmæla á Austurvelli. Viðburðir sem opnir eru almenningi og ekki eru í hagnaðarskyni eru þannig undanskildir gjaldtökunni.

Þetta kemur fram í skriflegu svari borgarinnar við fyrirspurn mbl.is en mótmælendahópurinn „Jæja“ greindi frá því á Facebook-síðu sinni í morgun að nú þyrfti að borga 20 þúsund krónur fyrir afnot á Austurvelli, t.d. til mótmæla.

Bjarni Brynjólfsson, upplýsingastjóri Reykjavíkurborgar, segir að í færslu „Jæja“ sé vísað til almennu reglunnar um grunngjald fyrir afnot af borgarlandi sem tekið hafi gildi 1. janúar síðastliðinn. Hins vegar sé ekki greitt grunngjald fyrir mótmælafundi.

„Á þessu máli er borgaralegur vinkill sem snýst um rétt fólks í lýðræðisríki til að mótmæla. Ef aðilar sem standa fyrir mótmælasamkomu þurfa á þjónustu að halda frá borginni, t.d. komast í rafmagn, loka götum eða koma fyrir sviði þá er þetta spurning um vinnuframlag af hálfu borgarinnar og þar með fellur kostnaður á borgina. Þá er spurning hver eigi að greiða hann,“ segir Bjarni.

„Betra er að hafa skipulag á hlutunum og almennt finnst borginni gott að vita fyrirfram af fjöldasamkomum sem nýta sér borgarlandið til að hægt sé að bregðast við og eða jafnvel krefja fólk um bætur ef umgengnin er ekki í samræmi við það sem eðlilegt getur talist. Því er sjálfsagt að sækja um afnot af borgarlandinu á heimasíðu Reykjavíkur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina