Leikskólastjórar fagna ákvörðuninni

Erfið staða leik­skól­anna í Reykja­vík og krafa borg­ar­yf­ir­valda um frek­ari …
Erfið staða leik­skól­anna í Reykja­vík og krafa borg­ar­yf­ir­valda um frek­ari aðhald í rekstri hef­ur verið mikið til umræðu að und­an­förnu. mbl.is/Árni Sæberg

Leikskólastjórar í Reykjavík fagna því að borgarstjórn hyggist bæta úr slæmu rekstrarumhverfi leikskólanna. Þetta kemur fram í ályktun sem leikskólastjórar í Reykjavík sendu frá sér rétt í þessu.

Eins og fjallað var um fyrr í dag samþykkti borg­ar­ráð ein­róma á fundi sín­um í morg­un að veita 920 millj­óna króna viðbótar­fjárveit­ingu til skóla og leik­skóla í borg­inni. Fjár­mun­un­um er ætlað að koma til móts við kostnað vegna lang­tíma­veik­inda starfs­manna, sér­kennslu og skóla­akst­urs. Þá verður fæðisgjald hækkað og framlög vegna námsgagna til skapandi starfs í leikskólum hækkuð svo eitthvað sé nefnt.

Vonandi byrjun á „löngu tímabærum úrbótum“

„Það er von okkar að fyrirhugaðar aðgerðir séu byrjun á löngu tímabærum úrbótum í rekstri leikskóla í Reykjavík og fyrstu skref í átt að betri tíð á fyrsta skólastiginu,“ segir í ályktuninni.

Þrátt fyrir þessi fyrstu skref telja leikskólastjórarnir margt í starfsumhverfi leikskóla sem þurfi að skoða og bæta. „Það er því von okkar að borgarstjórn horfi enn lengra fram á veginn og haldi áfram á þessari braut framþróunar og endurbóta,“ segir í ályktuninni. „Að auki teljum við fagnaðarefni að sjá samstöðu leikskólastjóra í þessu máli og ánægjulegt að slík samstaða geti leitt til úrbóta af þessu tagi.“

Vilja snúa vörn í sókn í skólamálum

Erfið staða leik­skól­anna í Reykja­vík og krafa borg­ar­yf­ir­valda um frek­ari aðhald í rekstri hef­ur verið mikið til umræðu að und­an­förnu. Marg­ir þess­ara skóla glíma nú við mikla mann­eklu og hafa sum­ir þeirra neyðst til að skerða þjón­ustu, m.a. með því að senda börn heim. Var þannig 71 stöðugildi á leik­skól­um Reykja­vík­ur­borg­ar ómannað við upp­haf þess­ar­ar viku.

„Við erum að leggja grunn til framtíðar, með því að snúa vörn í sókn í skóla­mál­um,“ sagði Dag­ur B. Eggerts­son borg­ar­stjóri á blaðamanna­fundi sem hald­in var í Ráðhús­inu nú eft­ir há­degi til að kynna 10 liða aðgerðaáætl­un í skóla- og leik­skóla­mál­um Reykja­vík­ur­borg­ar.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja hagræðingarkröfur meirihlutans hins vegar vera „algerlega óraunhæfar“ að því er fram kemur í bókun þeirra sem lögð var fram í borgarráði í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert