Unglingar lesa mun meira en áður

mbl.is/Styrmir Kári

Nemendum í 10. bekk sem lesa aldrei bækur hefur fækkað en nemendum sem lesa daglega hefur fjölgað, að því er niðurstöður ESPAD rannsóknarinnar 2015 sýna. Breytingarnar koma fram með ólíkum hætti meðal kynjanna.

ESPAD rannsóknin nær til unglinga í 10. bekk og er lögð fyrir í hátt í 40 Evrópulöndum á fjögurra ára fresti, síðast vorið 2015. Sé litið á niðurstöður síðustu 12 ára má sjá mikinn kynjamun á lestrarvenjum unglinga. Stúlkur hafa verið mun duglegri en piltar að lesa bækur.

Hlutfall bóklausra nemenda í 10. bekk.
Hlutfall bóklausra nemenda í 10. bekk. Gögn úr ESPAD rannsókninni

En það er einnig talsverður kynjamunur á þessum jákvæðu breytingum. Strákum sem lesa aldrei bækur hefur fækkað úr 33% 2003 í 23% 2015. Hlutfall stúlkna sem lesa aldrei bækur er lægra og hefur verið stöðugt í kringum 14% síðustu 12 árin, segir Brynhildur Þórarinsdóttir, sem hefur umsjón með Barnabókasetri Íslands, sem er rannsóknasetur um barnabókmenntir og lestur barna og vinnur m.a. að bættum lestararvenjum barna og ungmenna.

Hún segir að þegar litið er til lestrarhestanna, þeirra sem lesa bækur á hverjum degi, sjáum við aðra mynd. Stúlkur hafa verið fleiri í þessum hópi en piltar og könnunin sýnir að aukning í lestri stúlkna felst fyrst og fremst í enn hærra hlutfalli þeirra sem lesa á hverjum degi. Stúlkum sem lesa daglega fjölgar úr 13% í 18%, en til samanburðar hefur hlutfall bókhneigðra pilta verið stöðugt í kringum 7%. 

Hlutfall bókhneigðra nemenda í 10. bekk.
Hlutfall bókhneigðra nemenda í 10. bekk. Gögn úr ESPAD rannsókninni

„Þetta eru mjög góð tíðindi, stelpurnar stóðu betur að vígi áður og lestur þeirra hefur aukist. Við sjáum umtalsverða fjölgun meðal stelpna sem lesa daglega sér til ánægju. Hvað strákana varðar er gleðilegt að bóklausu strákunum fækkar. Það að lesa eitthvað er fyrsta skrefið í átt að því að bækur verði hluti af daglegu lífi. Þetta vekur því vonir um að lestrarhestum í hópi stráka muni líka fjölga í framtíðinni,“ segir Brynhildur sem einnig er dósent við kennaradeild Háskólans á Akureyri.

Brynhildur Þórarinsdóttir, rithöfundur og dósent við kennaradeild Háskólans á Akureyri …
Brynhildur Þórarinsdóttir, rithöfundur og dósent við kennaradeild Háskólans á Akureyri hefur umsjón með Barnabókasetri Íslands, sem er rannsóknasetur um barnabókmenntir og lestur barna. mbl.is/Golli

Brynhildur mun á morgun, ásamt Þóroddi Bjarnasyni og Andreu Hjálmsdóttur, kynna niðurstöður rannsóknarinnar á læsisráðstefnu sem stendur yfir í Háskólanum á Akureyri.

Dagskrána er að finna hér

Hildur Loftsdóttir, blaðamaður, ræddi um læsi við Brynhildi í Sunnudagsmogganum nýverið. Þar kom fram að rannsóknir eins og PISA sýna að þeim meira sem börn lesa utan skóla, því betri er lesskilningurinn. Besta ráðið til að verða vel læs er að lesa sem oftast og sem fjölbreyttast efni því með því eflist orðaforðinn og þar með máltilfinningin og ritfærnin.

„Lesturinn ýtir líka undir aðra þætti eins og skilning á líðan annarra og samkennd, það þroskar börn að lifa sig inn í bækur, setja sig í spor persónanna og upplifa heiminn í gegnum þær. Þar með eiga þau líka auðveldara með að lifa sig inn í næstu bók og þar næstu. Þannig opnar hver bók dyr að annarri.“

Úr viðtalinu:

„Læsið er algjör grunnur að öllu námi, alveg sama í hvaða átt krakkarnir stefna. Læsið verður að vera í lagi, m.a. í stærðfræði. Maður verður að hafa góðan lesskilning til þess að komast áfram í skóla.

En læsið hjálpar ekki bara í skóla. Við menntum ekki börn bara til þess að læra meira og meira, heldur til þess að taka þátt í samfélaginu. Það þarf góðan lesskilning til þess að taka þátt í lýðræðissamfélagi; að lesa sér til um allt sem er að gerast, að taka þátt í kosningum og að leggja sitt af mörkum til samfélagsins. Og eins og ég sagði áðan þroska börnin með sér samkennd út frá bóklestri og það skiptir gríðarlega miklu máli nú til dags.“

 Lestraráhuginn skiptir mestu

„Við vitum að áhugi íslenskra barna og unglinga á yndislestri hefur dregist saman á undanförnum árum og áratugum. Á sama tíma hefur árangri í lesskilningi hrakað.

 Það er mest vísað í niðurstöður úr PISA-prófunum, sem eru alþjóðleg próf tekin í 10. bekk á vegum OECD. Niðurstaðan er sú að 30% drengja á Íslandi og 12% stúlkna ná ekki því sem við teljum nægilega góðan árangur. Þau eiga of erfitt með að sækja sér upplýsingar í texta og að leggja dýpri merkingu í hann.

Þessi hópur er fyrst og fremst reynslulaus. Þau hafa ekki öðlast lestraráhugann sem fær þau til þess að sökkva sér ofan í lesturinn og þannig læra að kryfja texta og vinna með hann. Lestraráhugi og lesskilningur haldast algjörlega í hendur.“

Fjársvelt bókasöfn

„Margir sérfræðingar í lestri og barnabókmenntum, eins og rithöfundar, skólasafnskennarar og allir aðrir sem koma að lestraruppeldi barna eru endalaust að benda á að við verðum að ná til barnanna til þess að þau fái áhuga á lestri.

Það verður að hjálpa þeim yfir þetta fjall sem virðist stoppa þau í að lesa. Og það verður ekki gert nema það sé til nægilega mikið af áhugaverðum bókum í skólanum, og nema skólasamfélagið og samfélagið allt sé áhugasamt um lestur, barnabækur og að bæta lestrarvenjur barna.

Það dregur auðvitað úr möguleikunum að skólasöfnin hafa verið verulega fjársvelt. Fyrir um átta árum varð mikill samdráttur á skólasöfnum og þau hafa ekki rétt úr kútnum síðan. Börnin standa í röðum eftir nýjum bókum. Litlir lestrarhestar klára jólabókaútgáfuna í febrúar. Ef við svölum ekki þessari þörf krakkanna fyrir nýtt og spennandi lesefni í skólunum er svolítið máttlaust að vera alltaf að tala um lestrarátak.“

Spjaldtölvuvæðing án bóka

„Það þarf að gefa út fleiri bækur og þetta bítur allt í skottið hvað á öðru; það að við kaupum lítið inn á söfnin dregur úr útgáfunni og herðir að aðstæðum höfunda til þess að koma með nýtt efni. Í draumaveröld væri fjöldinn allur af höfundum á launum við að búa til góðar bækur handa börnum og útgáfan væri mjög öflug.

Við höfum verið að spjaldtölvuvæða skólana, sem er góðra gjalda vert, en við höfum ekki fylgt því eftir með íslenskum barna- og unglingabókum sem væru þá læsilegar í spjaldtölvum. Þannig höfum við verið að hlaupa svolítið á undan okkur.

Höfundaheimsóknir í skóla hafa mjög góð áhrif. Kennarar, skólasafnskennarar og nemendur finna hvað áhugi á lestri eykst. Ekki bara á bókum viðkomandi höfundar heldur á lestri almennt. Það er líka alltaf vakning í kringum átök, eins og lestrarátak Ævars.“

 Virkjum sköpun og gleði

„Það þarf að virkja í gegnum sköpun og gleði, með hvatningu um hvað það er skemmtilegt að lesa, í stað þess að lýsa áhyggjum af ástandinu.

Sem betur fer eru margir kennarar að gera mjög skemmtilega hluti með lestur, ýmis áhugaverð verkefni út frá áhugasviðum nemenda. Skólasafnskennarar leggja sig fram við að kynnast öllum nemendum til að geta bent þeim á bækur við hæfi. Mikilvægt ert að bækur séu sýnilegar í skólastofunni og á göngum skólans með notalegri lestraraðstöðu. Sum börn hafa ekki uppgötvað að lestur er afþreying heldur finnst hann bara skólaverkefni. Um leið og þau sjá aðra krakka una sér við lestur gætu þau hent sér í einn sófann og gripið í bók.“

Aðferðin er vafasöm

„Menntamálaráðuneytið skortir ekki skilning á mikilvægi læsis eins og lesa mátti í hvítbók ráðherra um læsi í fyrra. En það er aðferðin sem það hefur gripið til er vafasöm; að fjölga prófum og einblína þannig á hinn tæknilega þátt læsis.

 Það sem vantar svo sárlega, og ég veit að Ævar hefur fundið fyrir því eins og við öll sem sinnum lestrarhvatningu á einhvern hátt, er sjóður sem við getum sótt í fyrir lestrarhvetjandi verkefni. Kennarar hafa einhverja möguleika, en umfram það vantar fjármagn í þessi verkefni.

Það þarf líka fleiri starfslaun tilbarnabókahöfunda. Barnabækur skrifa sig ekki sjálfar og það lifir enginn af því að skrifa barnabækur. Það eru ýmsir möguleikar til að breyta starfsaðstæðum þeirra. Það eru t.d. um 200 grunnskólar á landinu og ef bara yrði settur peningur í að skylda skólabókasöfnin og almenningsbókasöfnin til að kaupa þær barnabækur sem út koma, myndi það renna stoðum undir barnabókaútgáfuna. Það þyrfti líka afnema virðisaukaskatt af barnabókum.

Áhugann vantar ekki hjá ráðuneytinu, og skilninginn virðist ekki heldur vanta, en það hefur ekki fundist fjármagn til að sinna gleðinni og ýta þannig undir lestraráhuga barna. Það breytist vonandi,“ segir Brynhildur í viðtali við Sunnudagsmoggann í lok ágúst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert