Loforð er loforð – og loforðið var svikið

Benedikt Jóhannsson, formaður Viðreisnar.
Benedikt Jóhannsson, formaður Viðreisnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er hér vegna þess að ég á mér draum,“ sagði Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, á landsþingi flokksins sem nú stendur yfir. „Ég á mér draum um Ísland þar sem leikreglurnar eru þær sömu fyrir alla. Ísland þar sem allir njóta sanngjarns afraksturs af sameiginlegum auðlindum. Ísland þar sem jafnrétti gildir á öllum sviðum. Ísland þar sem landsmönnum er ekki skipt í lið eftir búsetu, kyni, aldri, menntun, stjórnmálaskoðunum eða eignum. Ísland þar sem við hlúum að okkar menningu en erum fordómalaus gagnvart öðrum menningarheimum. Ég á mér draum um að geta með stolti sagt: Við skiluðum betra Íslandi en við tókum við.“

Í ræðu sinni sagðist Benedikt staddur meðal félaga sinna í Viðreisn vegna þess að enginn annar ætlaði að breyta kerfinu þannig að hans draumur gæti ræst.

„Ástæðurnar fyrir því að við erum hér kunna að vera margar en nú höfum við ákveðið að fara sömu leið. Við ætlum að skora kerfið á hólm og gera á því grundvallarbreytingar. Frelsi og jafnrétti á öllum sviðum verður okkar leiðarljós.“

Benedikt sagði mikilvægt að ná sátt um höfuðatvinnugreinar en sú sátt þyrfti að fela í sér sanngirni í garð neytenda. Vaxtaútgjöld íslenskra heimila og fyrirtækja væru margföld á við það sem þekktist í nágrannalöndunum, og sökudólgurinn væri krónan.

„Ný mynt verður ekki tekin upp á augabragði, en svar okkar er að festa gengi krónunnar við erlendan gjaldmiðil með svonefndu myntráði. Þetta hafa margar þjóðir gert. Í kjölfarið lagast vaxtastigið hratt í átt að myntinni sem miðað er við.

Ef vextir lækka um helming við þetta bætum við afkomu ungs fólks stórlega. Vaxtalækkunin gæti numið sem svarar eitt hundrað þúsund króna launahækkun á mánuði. Á sama tíma eflast fyrirtækin og frumkvöðlar eiga auðveldara með að hrinda sínum hugmyndum í framkvæmd,“ sagði Benedikt.

Gúgúll og Jútúb gleyma engu

Benedikt sagði að ekki hefðu allir notið góðs af góðærinu og sagði stefnu Viðreisnar skýra; að enginn lífeyrisþegi almannatrygginga ætti að fá minni heildartekjur en sem nemur lágmarkslaunum. Þá sagði hann viðreisn heilbrigðiskerfisins löngu tímabæra.

„Traust almennings á Alþingi er lítið. Aftur og aftur hrista menn höfuðið yfir vinnubrögðum og störfum alþingismanna. En er það skrítið að þjóðin beri litla virðingu fyrir þingmönnum þegar þingmenn bera enga virðingu fyrir þjóðinni. Það voru ekki nema liðlega 10% þingmanna sem stilltu sér upp við hlið neytenda þegar úrelt landbúnaðarkerfi var fest í sessi til tíu ára. Það voru reyndar ekki nema 30% þingmanna sem studdu búvörusamningana með jái. Sumir sátu hjá, að sögn vegna þess að þeir voru á móti samningunum, aðrir sátu hjá vegna þess að þeir styðja samningana. Loks var stór hluti þingmanna úti í bæ að gæða sér á peruköku.

Er furða þó að almenningi blöskri? Ég sé að sumir vinir okkar tala um Viðreisn sem mögulegt þriðja hjól undir vagni ríkisstjórnarflokkanna. En ríkisstjórnin þarf greinilega ekkert þriðja hjól. Hún hefur þegar þriðja hjólið og það fjórða. Meira að segja varadekk þegar kemur að því að vernda kerfið,“ sagði Benedikt um stjórnmálin.

Hann kom einnig inn á Evrópumálin.

„Loforð er loforð – og loforðið var svikið,“ sagði hann um fyrirheit stjórnarflokkanna um þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir síðustu kosningar. „Allir voru sviknir, hvort sem þeir vildu halda viðræðum áfram eða jarða ferlið.“

„Evrópa endar á Íslandi eða kannski byrjar hún hér. Vissulega vilja flestir stuðningsmenn Viðreisnar að við ljúkum umsóknarferlinu að Evrópusambandinu með hagstæðum samningi sem borinn verður undir þjóðina. En þetta er einfaldlega svo stór ávörðun að best fer á því að þjóðin sjálf taki hana í sameiningu. Þess vegna viljum við efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald umsóknarferlisins. Segi þjóðin , höldum við áfram og vinnum að besta mögulega samningi fyrir Ísland. Segi hún nei hefur meirihlutinn ákveðið að fækka möguleikum Íslands í framtíðinni og við munum hlíta því.

Þetta er nákvæmlega sama stefna og núverandi stjórnarflokkar studdu fyrir síðustu kosningar. Það breytir engu hve oft menn segjast hafa útskýrt málið og þræta fyrir fortíðina. Þó að minni stjórnmálamanna sé brigðult gleyma félagarnir Gúgúll og Jútúb engu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka