Leyndarmál fortíðar afhjúpuð

Forsíða Sunnudagsblaðs Morgunblaðsins um helgina.
Forsíða Sunnudagsblaðs Morgunblaðsins um helgina. Ásdís Ásgeirsdóttir

Ásdís Halla Bragadóttir er enn efins um hvort hún hafi gert rétt með því að gefa sögu fjölskyldu sinnar út á bók. Í einlægu viðtali í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina segir hún frá tilurð bókarinnar Tvísaga, móðir, dóttir, feður sem hún skrifar ásamt móður sinni. Skrifin eru mjög persónuleg og gengu afar nærri þeim báðum.

Í bókinni er sögð fjölskyldusaga sem er dramatísk og átakanleg en jafnframt full af kærleika. Upphaf bókarskrifanna má rekja til símtals sem Ásdís Halla fékk fyrir fimm árum frá manni sem hún þekkti ekkert. „Maðurinn vildi vita hvort ég vissi hver pabbi minn væri og ég sagðist telja mig vita það. Hann bað mig um að grennslast fyrir um það hvort pabbi hans gæti hugsanlega verið blóðfaðir minn,“ segir hún í viðtalinu.

Forvitni Ásdísar var vakin með símtalinu. Hún gat ekki látið sem hún hefði ekki þessa vitneskju. „Þegar ég sest niður með mömmu minni til þess að fá svar við því hvað gerðist og hver er hugsanlega pabbi minn og hver ekki förum við í gegnum ævi hennar. Og það er sú saga sem er mjög dramatísk og að mínu mati það áhugaverð að ég ákvað að gefa út bókina.

Ásdís Halla ásamt systkinum sínum Sonny, Sívari og Heiðu á …
Ásdís Halla ásamt systkinum sínum Sonny, Sívari og Heiðu á jólunum í Ólafsvík. Ljósmynd/Úr einkasafni

Ég hafði enga sérstaka þörf fyrir að gefa út bók um hver væri pabbi minn. Það er öllum sama um það, þetta er frekar sú saga sem kemur í ljós þegar mamma opnar loks Pandóruboxið. Hver er aðdragandinn? Og hver er saga manneskju sem lendir í að faðerni barns hennar er véfengt?“

Upphaflega var aldrei inni í myndinni að gefa þessa sögu út á bók, segir Ásdís jafnframt í viðtalinu. Aldrei, aldrei. Þetta var svo viðkvæmt og vandasamt því margt af því sem þarna kemur fram er atburðir sem ég hef aldrei sagt frá og sem mamma hefur aldrei sagt frá. Það að stíga fram og tala um þá er stórt skref. Það að velja svo að opinbera þá er ekki minna skref! ... Rökin með eru þau að kannski hjálpar þetta einhverjum að vinna með sínar eigin tilfinningar. Ég hugsaði með mér að ég yrði aldrei sátt við það þegar að frá liði að hafa verið svo kjarklaus að ég þyrði ekki að segja frá. Og þó það sé erfitt, vil ég frekar hafa verið kjörkuð og gera mistök en að þora ekki að takast á við hlutina.“

Viðtal í heild sinni má lesa í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.  

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »