Mamma opnaði loks Pandoruboxið

Ásdís Halla Bragadóttir opnar sig um átakanlega fjölskyldusögu sína í …
Ásdís Halla Bragadóttir opnar sig um átakanlega fjölskyldusögu sína í nýrri bók, Tvísaga, móðir, dóttir, feður, sem komin er út. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Ásdís Halla Bragadóttir hefur ekki alltaf heitið því nafni en hún fæddist sem Halla María Santana en hafði ekki hugmynd um það fyrr en hún var fullorðin að svo hefði verið. „Mamma var gift bandarískum hermanni,“ segir hún og útskýrir að við fæðingu var henni fengið eftirnafn hans.

 Eins og fram kom í frétt á mbl.is í gærkvöldi er ítarlegt viðtal við Ásdísi Höllu í Sunnudagsmogganum í dag en það er birt hér á mbl.is í heild.

Frétt mbl.is: Örlagaríkt símtal upphafið að bók

Líklega er þetta með erfiðari viðtölum sem ég hef tekið. Málefnið er afar viðkvæmt og persónulegt. Það fór samt vel á með okkur nöfnunum en oft var erfitt fyrir Ásdísi að segja frá og tók það virkilega á hana. Oftar en ekki vöknaði okkur báðum um augun í viðtalinu. Ég komst í handritið síðar og get ég með sanni sagt að ég lagði það ekki frá mér fyrr en að lestri loknum. Margir þekkja Ásdísi Höllu Bragadóttur vegna starfa hennar víðs vegar í þjóðfélaginu bæði í pólítík og viðskiptalífinu. Hún er hörkudugleg, klár, ákveðin og metnaðarfull og hefur náð langt í lífinu. Það sem færri vita er að fjölskyldusaga hennar er flókin og dramatísk. Út er komin bókin Tvísaga, móðir, dóttir, feður, þar sem Ásdís Halla fer yfir ævi sína og æsku, og ævi móður sinnar og afhjúpar leyndarmál fortíðar. Upphaf bókaskrifa má rekja til örlagaríks símtals fyrir fimm árum um hugsanlega rangfeðrun Ásdísar Höllu. Hún segist stundum efast um að það hafi verið rétt að gefa bókina út; hún sé það persónuleg.

Ásdís Halla og móðir hennar, Sigríður Stefanía Sívertsdóttir Hjelm eða …
Ásdís Halla og móðir hennar, Sigríður Stefanía Sívertsdóttir Hjelm eða Bebba eins og hún er ávallt kölluð.

Það er sólríkt í Þingholtunum þennan haustdag þegar ég fer á fund Ásdísar Höllu. Við komum okkur fyrir í fallegri stofu og byrjum á léttu nótunum. Réttara sagt byrjar Ásdís á að spyrja mig spjörunum úr og segist hafa meira gaman af því að fá að spyrja en svara. Hún hefur nefnilega mikinn áhuga á fólki og sögunum sem búa þar að baki. En erindið er að ræða hennar sögu, hennar fjölskyldusögu, sem er meira en lítið flókin, átakanleg og dramatísk. Svo flókin að Ásdís þurfti rúmlega þrjú hundruð síður til að segja hana í bók sinni Tvísaga, móðir, dóttir, feður sem kom út á föstudaginn.

Sagan er uppgjör við fortíðina og hjálpaði Ásdísi að skilja uppruna sinn en í leit sinni að faðerninu kynntist hún móður sinni upp á nýtt.

Örlagaríkt símtal upphafið

Ásdís hafði alltaf horft til baka á æsku sína sem kærleiksríka og þrátt fyrir basl og fátækt segir Ásdís að hún hafi aldrei upplifað skort, hvorki á ást, umhyggju né veraldlegum eigum. Fjölskylda hennar var á margan hátt ekki hin dæmigerða vísitölufjölskylda. Ásdís átti tvo eldri bræður sem byrjuðu ungir í neyslu og leiddust í framhaldinu út í afbrot og vandamál þeirra lituðu allt fjölskyldulífið. En Ásdís þekkti ekkert annað líf. Fortíð móður hennar var henni að mestu hulin og það sem hafði gerst áður en hún sjálf fæddist vissi hún lítið sem ekkert um.

Forsíða Sunnudagsblaðs Morgunblaðsins um helgina.
Forsíða Sunnudagsblaðs Morgunblaðsins um helgina. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Það var svo fyrir fimm árum að Ásdís fékk símtal sem varð til þess að hún fór að grafast fyrir um fortíðina. „Símtalið var frá manni sem ég þekkti ekki neitt sem sagði að pabbi sinn hefði velt því fyrir sér hvort hann gæti verið blóðfaðir minn. Maðurinn vildi vita hvort ég vissi hver pabbi minn væri og ég sagðist telja mig vita það. Hann bað mig um að grennslast fyrir um það, hvort þessi maður, pabbi hans, gæti hugsanlega verið blóðfaðir minn,“ útskýrir Ásdís.

Hvernig tilfinning var það þegar þú fékkst þessar fréttir að þú værir kannski rangfeðruð?

„Fyrsta tilfinningin var að þetta væri misskilningur, bara einhver sem vissi ekki betur og það væri ekki þess virði að pæla í þessu. Fyrst ætlaði ég ekki einu sinni að nefna þetta við mömmu. En svo kemur í ljós þegar ég hringi í mömmu og segi henni frá því að ég hafi fengið þetta sérkennilega símtal að hún kannast við kappann. Og þá brá mér dálítið. Þegar ég áttaði mig á því að maðurinn sem taldi að hann gæti hugsanlega verið blóðfaðir minn, þó að það væru mjög litlar líkur á að hann væri það raunverulega, var maður sem að mamma hafði einhvern tímann þekkt.“

Nafngreinirðu hann í bókinni?

„Já. Ég geri það.“

Er það eitthvað sem þú vilt upplýsa um hér og nú?

„Það væri rangt af mér að slíta söguna úr samhengi og segja of mikið um hana hér. Það tók mig langan tíma að skrifa hana og ég vandaði mig við að reyna að gera það af virðingu við þá sem við sögu koma og heildarsamhengið er mikilvægara en afmarkaðar upplýsingar um persónur eða tiltekna atburði,“ segir Ásdís. „Bókin spannar tímabilið frá því að mamma fæðist og þar til ég fæ upplýsingarnar um hver blóðfaðir minn raunverulega er. Hún er ekki um það hvað gerðist eftir það – það er nútíminn sem í mínum huga er ekki jafn áhugaverður og það hvernig atburðir fortíðar elta okkur stöðugt og móta einstaklinga og heilu fjölskyldurnar.“

Nú þurfum við að tala saman

Forvitni Ásdísar var vakin með símtalinu. Hún gat ekki látið sem hún hefði ekki þessa vitneskju. „Það leiddi til þess að ég fór að spyrja mömmu. Mamma var mjög lokuð og vildi ekki ræða þessi mál, sagði að ég vissi allt sem ég þyrfti að vita en ég var ekki tilbúin til að gefast upp og fór að grennslast fyrir. Fór að hnýsast og spyrja, kanna málin og þá kom eitt og annað í ljós. Ég settist aftur á móti mömmu og sagði henni að nú þyrftum við að tala saman fyrir alvöru. Og hún hafði enga undankomuleið þegar það kom í ljós með DNA prófi, að maðurinn sem hún hafði alltaf sagt að væri pabbi minn var ekki raunverulegur blóðfaðir minn,“ segir hún. „Og þá þurfti ég að vita hver það var og hvernig hlutirnir hefðu gerst,“ segir Ásdís en þær mæðgur tóku sér góðan tíma, enda sársaukafullt af rifja upp fortíðina. „Það tók hana mjög langan tíma að segja söguna, hún var mjög lengi í gang. Eitthvað sem hún var búin að þegja yfir í 45 ár. Hún sagði mér þetta í litlum bútum og til að auðvelda henni það þá sagði ég henni að vera ekki að einblína á þetta,“ og átti Ásdís þá við faðernismálið. „Við skulum bara tala um þína æsku, uppvöxt og fullorðinsár og við byrjum bara á byrjuninni,“ sagði hún við móður sína.

„Við gáfum okkur mjög góðan tíma til að fara í gegnum það og hún sagði mér allt um æsku sína og uppvöxt, sem var mjög áhugavert og margt mjög átakanlegt, sláandi og mjög erfitt. Erfitt að tala um, erfitt að hlusta á og erfitt að skrifa um! Svona fórum við í gegnum þetta, frá tímabili til tímabils og svo fléttaði ég það inn í mín uppvaxtarár og það sem ég þekkti og mundi og vissi, og vissi ekki,“ segir hún og hlær.

Mægður saman á góðri stundu - Ásdís Halla og Bebba.
Mægður saman á góðri stundu - Ásdís Halla og Bebba.

„Og þannig varð til saga, sem átti fyrst bara að vera fyrir okkur og nánustu afkomendur. Af því að þetta er mjög persónulegt og viðkvæmt,“ segir Ásdís með áherslu á orð sín. „Svo þegar ég var búin að skrifa þetta og systkini mín voru búin að lesa var það sameiginleg ákvörðun að kannski þætti einhverjum gott að lesa þetta. Kynnast þessu.“

Koddahjal sem varð að bók

Bókin var fimm ár í vinnslu en þær mæðgur fóru sér að engu óðslega enda erfitt fyrir móður hennar að kafa djúpt í fortíðina. „Þegar mamma var í stuði þá hittumst við og spjölluðum saman. Og ég mátti ekki vera með blað og penna,“ segir hún og hlær.

En upptökutæki?

„Nei!“ segir hún og skellihlær. „Þannig að ég stalst til að kveikja á símanum. Hitt hefði truflað mömmu, af því að þetta er svo persónulegt. Við lögðumst upp í hjónarúmið hennar og mamma byrjaði að segja mér sögur. Þetta var í raun og veru bara koddahjal. Og þannig fundum við smám saman taktinn; leiðina til að tala um þetta. Svo þegar ég var búin með hvern kafla þá las mamma yfir. Til að geta opnað sig varð tilfinning hennar gagnvart þessu að vera að þetta væri eins og koddahjal,“ segir Ásdís.

Ásdís Halla Bragadóttir.
Ásdís Halla Bragadóttir. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

„Þannig að upphaflega var aldrei inni í myndinni að gefa þetta út. Aldrei, aldrei. Þetta var svo viðkvæmt og vandasamt því margt af því sem þarna kemur fram eru atburðir sem ég hef aldrei sagt frá og sem mamma hefur aldrei sagt frá. Það að stíga fram og tala um þá er stórt skref. Það að velja svo að opinbera þá er ekki minna skref!“ segir hún og brosir.

„Þegar ég sest niður með mömmu minni til þess að fá svar við því hvað gerðist og hver er hugsanlega pabbi minn og hver ekki, þá förum við í gegnum hennar ævi. Og það er sú saga sem er mjög dramatísk og að mínu mati það áhugaverð að ég ákvað að gefa út bókina. Ég hafði enga sérstaka þörf fyrir að gefa út bók um hver væri pabbi minn. Það er öllum sama um það, þetta er frekar sú saga sem kemur í ljós þegar mamma opnar loks Pandóruboxið. Hver er aðdragandinn? Og hver er saga manneskju sem lendir í að faðerni barns hennar er véfengt?“

Svo flókið að það þurfti heila bók

Í bókinni er sagan sögð frá tveimur sjónarhornum; Ásdísar og móður hennar Bebbu sem heitir fullu nafni Sigríður Stefanía Sívertsdóttir Hjelm.

„Þetta eru tvær sögur en af því að sannleikurinn er aldrei einhlítur þá segja allir sína sögu eins og þeir upplifa hana. Jafnvel systkini, sem að fæðast inn í sömu fjölskyldu og eiga sömu mömmuna geta lýst sinni æsku eða uppvexti gjörólíkt. Og einn og sami einstaklingurinn getur litið sama atburðinn mismunandi augum eftir því hvernig vindar blása og hvernig aðstæður þróast. Þannig verðum við jafnvel tvísaga,“ útskýrir Ásdís.

Bebba ásamt Ásdísi Höllu dóttur sinni.
Bebba ásamt Ásdísi Höllu dóttur sinni.

Þegar Ásdís er spurð hversu mörg systkini hún eigi kemur hik á hana og hún verður fyrst skrítin á svipinn en brosir svo.

Ég umorða spurninguna.

Hvað ertu alin upp með mörgum systkinum?

„Ég er alin upp við það að eiga fimm systkini. Við ólumst upp fjögur saman, ég og Heiða yngri systir mín og tveir eldri bræður, Sonny og Sívar. Við ólumst upp hjá mömmu og pabba en pabbi átti fyrir tvær dætur, Sigríði Heiðu og Rut, sem eru hálfsystur mínar og ég er alin upp við að séu það,“ segir hún.

Blaðamaður viðurkennir eftir smá þögn að þetta sé dálítið flókið.

„Ég hefði verið búin að samþykkja blaðaviðtal fyrr ef þetta væri einfalt!“ segir hún og skellihlær. „En það þurfti alveg 300 og eitthvað blaðsíður til að útskýra, þetta er mjög flókið. Fjölskyldumunstur eru víða flókin nú til dags, en þau gerast ekki mikið flóknari en þetta,“ segir Ásdís.

Bræður Ásdísar Höllu; Sonny og Sívar.
Bræður Ásdísar Höllu; Sonny og Sívar.

Fæddist Halla María Santana

Talið víkur að hugsanlegum föður.

„Ég var búin að bera þrjú föðurnöfn þegar ég fékk þetta símtal.“ Það ríkir þögn í stofunni.

„Ég get ekki útskýrt þetta,“ segir Ásdís en byrjar engu að síður að reyna það og gefur mjög svo stuttu útgáfuna. „Mamma og pabbi kynntust ung, svo hættu þau saman og byrjuðu svo saman aftur. Og í millitíðinni gerðist ýmislegt. Skömmu eftir að ég fæddist byrjuðu þau aftur saman og ég ólst upp við það að Bragi væri pabbi minn – og hann reyndist mér einstaklega vel,“ segir Ásdís.

Hvað meinarðu með þrjú föðurnöfn?

„Já, ég fæddist sem Halla María Santana en ég hafði ekki hugmynd um það fyrr en ég var fullorðin að svo hefði verið. Mamma var gift bandarískum hermanni,“ segir hún og útskýrir að við fæðingu var henni fengið eftirnafn hans. En það er einnig saga á bakvið fornöfnin. „Mamma var gangastúlka á Vífilstöðum og þar voru mjög strangar útivistarreglur. Einhvern tímann virti mamma ekki reglurnar og kom mjög seint heim. Og kona að nafni Ásdís var í því hlutverki að passa upp á stelpurnar, elskuleg kona sem fór eftir reglunum. Hún ætlaði að ávíta mömmu en áminning hefði getað leitt til brottrekstar. Og mamma segir við Ásdísi, sem var barnlaus kona, elsku Dísa, ef ég eignast einhvern tímann stelpu þá skal ég skíra hana í höfuðið á þér,“ segir Ásdís. „Og Dísa var alveg til í það. Svo fæðist ég löngu seinna og þá var mamma búin að gleyma þessu og skírir mig Höllu Maríu í höfuðið á bróður sínum Hallmari, sem sagan í bókinni fjallar líka töluvert um. Ég segi mikið frá Hallmari og hans hræðilegu örlögum. Svo fréttir Ásdís á Vífilsstöðum að mamma sé búin að eignast dóttur og fer upp á spítala til að kíkja á nöfnu sína. Þegar hún kemur hafði mamma ekki brjóst í sér til að segja henni að barnið héti Halla María. Og Dísa spurði hvort þetta væri nafna sín. Og mamma sagði bara já, en að hún hefði bætt við Höllu-nafninu,“ útskýrir Ásdís. „Nokkrum árum síðar var ég feðruð, ekki eiginmanninum heldur manninum sem mamma taldi að væri blóðfaðir minn,“ segir Ásdís og var þá Guðmundsdóttir en Bragi gekk henni ætíð í föðurstað. „Svo um fermingu ættleiðir Bragi mig og þannig fæ ég nafnið Ásdís Halla Bragadóttir,“ segir Ásdís.

Móður Ásdísar Höllu sést hér á miðri mynd með bandarískum …
Móður Ásdísar Höllu sést hér á miðri mynd með bandarískum eiginmanni sínum, Sam Santana og vinafólki þeirra.

„Svo fæ ég símtal um að hugsanlega sé enginn þessara þriggja faðir minn heldur jafnvel einhver maður sem ég hafði aldrei heyrt um og þá fékk ég loks tækifærið um að ræða við mömmu um fortíð hennar og fjölskyldunnar.“

Ömurleg æska móður

Greinilega voru ekki öll kurl kominn til grafar og ljóst að saga móður hennar væri full af leyndarmálum, og kannski leyndi hún þeim ekki öllum viljandi. Móðir Ásdísar, Bebba, hafði ekki átt sjö dagana sæla. Sem barn var hún á vergangi en stjúpfaðir hennar vildi lítið af henni vita. Hún þurfti að upplifa höfnun foreldra og þurfti snemma að sjá sér farborða. Auk þess varð hún fyrir kynferðisofbeldi á unga aldri. Einn yngri hálfbróður átti Bebba sem var augasteinn hennar og sá sem henni þótti vænst um í uppvextinum.

Ásdís Halla og systkini hennar.
Ásdís Halla og systkini hennar.

„Mamma á í raun og veru ömurlega æsku. Inni á milli komu ágætis tímabil en hún á þannig sögu að ég er þakklát fyrir hvað hún hefur getað gefið þrátt fyrir allt. Sagan fjallar um ákveðið fjölskyldumynstur þar sem sársauki fer á milli manna og á milli kynslóða og er mjög erfitt að vinda ofan af þegar þögnin er svona mikil. Þessi þögn sem við lifum svo mörg í getur verið svo sár þegar við burðumst ein með hana. Sagan er líka um þessa þörf sem við sem manneskjur höfum fyrir því að tilheyra. Að vera elskuð og vera viðurkennd. Og vera tekin inn í fjölskyldu eða hóp, vera partur af einhverju. Þessi ríka þörf fyrir að eiga mömmu, að eiga pabba, að eiga systkini. Og það er þessi mikli harmur þegar við náum því ekki og okkur er hafnað. Það er það sem skýrir svo margt. Mamma lendir ítrekað í þessu, þessi sársauki og þessi höfnun og skortur á viðurkenningu og ást, sem skýrir svo margt í okkur sem manneskjum. Og smitast svo frá kynslóð til kynslóðar og út í samfélagið með margvíslegum hætti og getur haft mjög alvarlegar og dramatískar afleiðingar. Við sjáum alls konar hluti gerast í samfélaginu sem eru afleiðingar þess að við vinnum ekki með þessar tilfinningar,“ segir Ásdís.

Sökuð um morð á bróður sínum

„Í bókinni er ég að fjalla um þessa sögu og hluti af henni er um Hallmar, bróður mömmu sem varð úti. Það var mikil sorg og hræðilegt slys,“ segir Ásdís en hann var einungis 23 ára þegar hann lést en Bebba tveimur árum eldri. „Pabbi hans, sem er stjúpi mömmu, sakar hana um að hafa myrt hann.“

Hvernig þá?

„Hann sakar hana um að hafa úthýst honum af heimili sínu og hrakið hann út í kuldann um nóttina. Það sé henni að kenna. Mamma bjó í Höfðaborginni sem var fátækrahverfi, við afar slæman kost. Hún bjó við ofboðslega mikla fátækt og bróðir hennar var mikið hjá henni. Svo gerast dramatískir atburðir í lífi þeirra sem enda með því að hann verður úti og þannig missir hún eina systkinið sitt. Og ekki nóg með það heldur er hún sökuð um að hafa myrt hann. Hún fær ekki að koma í jarðarförina.“

Ásdís Halla Bragadóttir.
Ásdís Halla Bragadóttir. Ásdís Ásgeirsdóttir

Þekktir þú þessa sögu þegar þú varst að alast upp?

„Ég hafði bara séð toppinn á ísjakanum, heyrt óljós minningabrot en aldrei áttað mig á samhenginu. Margt af því sem ég segi frá í bókinni úr hennar lífi og æsku hafði ég ekki hugmynd um. Þess vegna skipti ég bókinni upp í þessa tvo hluta,“ segir hún en annar hver kafli er frá sjónarhorni móður hennar en hinn frá sjónarhorni Ásdísar. „Þegar mamma eignast mig ákveður hún að hefja nýtt líf. Þannig að bókin fjallar um lífið fyrir og eftir fæðingu mína.“

Fann svo til með mömmu

Þú hlýtur að hafa kynnst mömmu þinni alveg upp á nýtt?

„Já,“ segir Ásdís og það blikar í tár í augum hennar. „Ég hélt að ég væri hætt að gráta,“ segir hún einlæg.

Við sitjum andartak í þögninni.

„Það var einmitt það sem var svo erfitt,“ segir hún og bætir við, „það hvarflaði ekki að mér að ég myndi einu sinni tárast, ég hélt ég væri búin með þetta.“

Ásdís Halla ásamt Kjartani Gunnarssyni, Friðriki Sophussyni og Davíð Oddssyni …
Ásdís Halla ásamt Kjartani Gunnarssyni, Friðriki Sophussyni og Davíð Oddssyni á landsfundi Sjálfstæðisflokksins árið 1993.

Ásdís segir bókaskrifin hafa tekið á sig tilfinningalega. „Eitt er að hlusta og reyna að skilja og þekkja foreldra sína og fjölskylduna. Að hlusta og fá mömmu til að segja frá var eitt, en svo þegar ég sat ein með sjálfri mér og skrifaði um hana og fór inn í söguna hennar, það var annað. Að ýta sjálfri mér til hliðar sem dóttur og setja mig eins vel og ég gat í spor mömmu gekk nærri mér. Ég fór á hennar stað og reyndi að segja hennar sögu. Ég upplifði það svo ótrúlega sterkt og það var oft átakanlegt og sárt. Og ég fann svo til með henni að ég engdist.“

Var hún góð mamma?

„Já mjög.“

Stóð hún sig vel sem móðir?

„Hún stóð sig vel sem mamma mín, ég ætla ekki að segja að hún hafi staðið sig óaðfinnanlega sem mamma allra barnanna sinna – aðstæður voru svo ólíkar og hlutskipti hennar sem einstæð móðir í Höfðaborg var erfitt. En hún var frábær mamma mín. Það hentaði okkur mjög vel að vera mæðgur.“

Þú ert lík henni.

„Já“, segir hún og hlær. „En við erum líka mjög ólíkar og það er kannski ástæðan fyrir því að samband okkar hefur alltaf verið náið. Þess vegna hvarflaði ekki að mér að ég vissi svona lítið um mömmu mína. Ég hélt að mamma mín væri opin og einlæg við mig, hefði alltaf sagt mér allt.“

Varstu fúl að hún skyldi ekki hafa sagt þér söguna fyrr?

„Ég upplifði allar þær neikvæðu tilfinningar sem hægt er að finna gagnvart annarri manneskju. Ég var sár. Reið. Fúl. Ég var það í smá tíma, nokkra daga, kannski nokkrar vikur. En það er ekki minn stíll að vera reið eða fúl og neikvæð. Það skiptir mig mjög miklu máli að lifa í núinu og vera jákvæð og glöð, trúa á hið góða. Ég sagði við sjálfan mig, ég get ekki verið svona reið, svona svekkt, og hvað þá út í mömmu mína sem hefur gert allt fyrir mig. Ég verð að vinda ofan af reiðinni. Ég verð að reyna að skilja hvað gerðist. Og ég gat ekki skilið nema að finna traust hjá henni og finna að hún treysti mér og að hún treysti sjálfri sér til að segja hlutina eins og þeir voru,“ segir Ásdís.

Ásdís Halla Bragadóttir
Ásdís Halla Bragadóttir mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Lán að fara í gegnum söguna

„Og það tók allan þennan tíma. Það tók svolítinn tíma að vinda ofan af reiðinni en smám saman gerðist það. Og það var mjög góð tilfinning. Að losna við það að verða sár og reið og finna að allt á sinn tíma og allt á sínar skýringar. En það er líka þannig að ég er ekkert viss um að ég hefði treyst mér til að fara í gegnum þetta fyrr. Vegna þess að maður þarf líka ákveðin persónulegan þroska til þess að geta sett sig í spor annarra. Ég á þrjú börn þegar ég fer í gegnum þetta og hef reynslu af því að vera móðir. Þannig að ég skildi betur móðurhlutverkið, hvernig maður stundum lætur satt kyrrt liggja. Ég er ekki viss um að það hefði verið gott fyrir mig að fá símtalið 20 árum fyrr. Eða 30 árum fyrr. Maður er aldrei alveg reiðubúin fyrir svona símtal en ég held að það hafi verið betra að það gerðist þegar ég var orðin þetta fullorðin. Það var erfitt en aðeins auðveldara að vinna úr því til lengri tíma,“ segir hún.

Ásdís segir að lífið hafi ekki verið eintóm átök. „Það má ekki gleyma að allt á sér margar hliðar. Þrátt fyrir þessa fjölskyldusögu höfum við átt stórkostlega tíma og fundið fyrir gleði og ást og hamingju. Það er líka þannig að í gegnum harminn og áföllin fær maður tækifæri til að kynnast betur og upplifa meiri nánd. Þó að ég hafi verið reið fyrst þá finnst mér finnst eftir að hafa sest niður með mömmu og farið í gegnum þetta þá líður mér núna eins og þetta hafi í raun verið lán,“ segir hún því annars hafi hún aldrei fengið að heyra sögu móður sinnar. „Hlustað, og reynt að setja mig í hennar spor. Kynnst konunni sem kom mér í heiminn,“ segir hún en bætir við að móður sinni hafi oft og tíðum þótt hún of spurul.

Ást, fíkn, og fjölskyldudrama

Hvað með þína æsku? Áttu góðar æskuminningar?

„Já.“

Þannig að þú upplifir að þín æska hafi verið nokkuð normal?

„Nei, alls ekki normal!“ segir Ásdís og hlær hátt. „Sko, þitt líf var normal fyrir þér. Mitt líf var normal fyrir mér. Það sem við þekkjum er normalt fyrir okkur en svo sér maður það öðrum augum þegar horft er til baka.“

Hvernig var æskan þín frábrugðin því sem við teljum normal æsku?

„Ég var fullorðinn krakki. Þurfti snemma að axla ábyrgð.“

Af því að foreldrar þínir gerðu það ekki?

„Orka þeirra fór annað, bræður mínir voru mjög erfiðir. Það fór mikil orka í það. Mamma átti mjög erfiða tíma inn á milli og pabbi þurfti að vinna mikið og það var mikið basl.“

Var óregla á heimilinu?

„Ég sjálf myndi ekki orða það þannig og ég vil ekki gefa heimilishaldinu þann stimpil, mér finnst rangt að einfalda líf heillar fjölskyldu með þeim hætti að gefa því stimpilinn ,,óregla“ en vissulega hefur neysla í fjölskyldunni mótað okkur öll mjög mikið. Fyrirgefðu ... ég veit að það er ekkert auðvelt að taka þetta viðtal,“ segir hún og útskýrir að hún vilji ekki dæma neinn.

„Mér fannst mjög mikilvægt að skrifa söguna, og þetta er saga. Þetta er ekki túlkun, og ekki predikun, ég er ekki að reyna að setja fólk í box, ég er að bara að reyna að segja sögu. Svo verður hver og einn að taka með sér úr sögunni það sem hann vill taka með sér. Og ég hugsa að fólk geti lesið söguna og tekið með sér gerólíka hluti. Sumum finnst sagan örugglega uppfull af óreglu á meðan að öðrum finnst það ekki. Systir mín las bókina og fannst þetta vera ástarsaga. Vinkona mín las bókina og fannst þetta vera saga um fíkn. Vinur minn las bókina og fannst þetta vera drama um fjölskyldumynstur. Þess vegna vil ég forðast það að ramma inn um hvað sagan er, setja einfalda merkimiða á líf fólks sem hægt er að upplifa með svo mismunandi hætti.“

Ásdís Halla Bragadóttir
Ásdís Halla Bragadóttir mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Uppgjör við eldri bróður

Segðu mér frá bræðrum þínum.

„Annar er dáinn, hann var fíkill,“ segir Ásdís en hann var ávallt kallaður Sonny. „Sagan er líka um það, af hverju hann dó og hvað gerðist eftir að hann dó. Það verður ákveðið uppgjör þegar hann deyr. Sonny var sjö árum eldri en ég og Sívar níu árum eldri. Þeir fóru báðir í fíkniefni og ég segi frá þeim báðum og ég reyni að gera það heiðarlega,“ segir hún. „Sívar er búinn að lesa bókina.“

Hvernig brást hann við?

„Hann var sáttur við að ég fór í gegnum þetta uppgjör og í fyrsta sinn í mjög langan tíma gátum við átt persónuleg og náin samtöl vegna þess að við lögðum til hliðar merkimiðana og stimplana og fortíðina og söguna og gátum talað saman eins og einstaklingar, fullorðið fólk sem hafði enga þörf fyrir að særa og meiða. Og það er líka eitt af því sem gerist þegar maður reynir að gera hlutina upp eins heiðarlega og maður getur, þá á maður auðveldara með að reyna að skilja alla sem við sögu koma.“

Á hann rödd í bókinni?

„Já, mér fannst það mjög mikilvægt. Hans rödd er ekki sama og mín og ég treysti mér ekki til að skrifa hans hlið frá mínu sjónarhorni. Þannig að ég bað hann um hjálp. Við höfum farið mjög ólíkar leiðir í lífinu en eigum saman þessa sögu, að hluta til,“ segir hún en bróðir hennar á að baki langan neysluferil. „Hann og strákarnir hans, Kristján Markús og Stefán Logi Sívarssynir, hafa gengið í gegnum ýmislegt og þó að þeir hafi verið nánir mér þegar strákarnir voru yngri var sambandið svo lítið í langan tíma að ég treysti mér ekki til að ljá Sívari rödd mína. Hann er fæddur níu árum á undan mér og hann upplifir allt aðra og miklu erfiðari hluti en ég,“ segir Ásdís en í bókinni kemur fram hversu snúin æskan reyndist bræðrum hennar.

„Kerfið brást þeim. Og móður minni.“

Til að skilja betur atburðarás ýmissa atburða í lífi móður sinnar lagðist Ásdís í heimildavinnu og skoðaði gamlar lögregluskýrslur sem tengdust fjölskyldunni, t.d. frá atvikinu þegar bróðir móður hennar dó. Hún las einnig barnaverndarskýrslur til að skilja hvers vegna bræður hennar voru teknir af móður sinni. „Þær hjálpuðu mér að sjá heildarmyndina en einnig hjálpaði það mér mjög mikið og líka til að skilja tíðarandann.“

Ásdís segir að bræður sínir hafi oft setið inni og hún hafi heimsótt þá á Litla Hraun sem unglingur. Líklega teljist það ekki normal æska en það var hluti af hennar tilveru. Hún segir frá því í bókinni hvernig hún sextán ára gömul hafi smyglað læknadópi inn á Litla-Hraun fyrir Sonna sem henni þótti svo vænt um.

Voru bræður þínir góðir við þig?

„Þær minningar sem ég á um þá eru flestar góðar og sérstaklega þegar við vorum öll yngri. Við Sonny vorum nánari enda nær hvort öðru í aldri en því miður er það þannig að þegar neyslan verður hörð og einstaklingarnir mjög veikir þá geta samskiptin orðið svo átakanleg að þau ganga nærri manni og maður setur upp vegg til að verja sig frá erfiðleikunum.

Ásdís segist ekki hafa skammast sín fyrir bræður sína en að hún hafi ekki talað um þá að fyrra bragði við ókunnuga. Þeir sátu gjarnan inni fyrir innbrot og smáglæpi tengda fíkniefnum.

„Ég talaði ekki um það, því ég mat það svo að það væri ekkert skynsamlegt fyrir mig sem krakka og ungling. Fordómarnir eru svo miklir og samfélagið svo miskunnarlaust.“

Hannes Hólmsteinn, Kjartan Gunnarsson, Ásdís Halla og Aðalsteinn eiginmaður Ásdísar …
Hannes Hólmsteinn, Kjartan Gunnarsson, Ásdís Halla og Aðalsteinn eiginmaður Ásdísar Höllu. mbl.is/Styrmir Kári

Tilfinningar bera Ásdísi ofurliði. Tárin spretta fram á ný.

„Mig langar ekki að tala um þetta.“

En þú ert búin að skrifa heila bók um þetta.

„Ég var bara ein með sjálfri mér að skrifa bókina. Mig langar ekki í viðtöl. Mig langar ekki að tala um þetta, að stimpla og að reyna að finna einföld svör við flóknu spurningum um lífið og allar þær tilfinningar sem við berjumst við. Ég átti kannski bara að segja nei við þig eins og alla hina,“ segir hún og brosir í gegnum tárin.

En með bókinni hlýtur þú að hafa viljað að hún hefði einhvern tilgang.

„Já. En ekki með þeim formerkjum að túlka, að matreiða flókna tilveru með einföldum hætti, ekki með þeim formerkjum að taka líf bróður míns og pakka því inn í málsgrein í Moggaviðtali. Það er það sem er svo erfitt. Þetta eru manneskjur, þetta er líf, “ segir hún og vill ekki slá því upp hér með frjálslegum hætti í blaðaviðtali. „Þeir fá rými í bókinni, kannski ekki nægilega mikið en lengra gátum við ekki gengið að sinni.“

Með efasemdir um útgáfuna

En auðvitað ef maður skrifar bók, þá vill maður að hún sé lesin.

„Já, þess vegna erum við að tala saman. Á endanum var ástæðan fyrir því að hún var gefin út sú að mig langar að fá fólk til að reyna að skilja frekar en að dæma. Skilja líf ólíkra einstaklinga sem hefur fléttast saman í fjölskyldusögu. Reyna að skilja að æska, ást, aðbúnaður, athygli og höfnun getur haft í för með sér svo þungbær áföll að einstaklingar bíða þess aldrei bætur. Aldrei, sama hvað á gengur. Það er búið að skemma. Mig langar að fólk reyni að setja sig í spor fólks sem hefur ekki stuðning hvorki fjölskyldu né samfélagsins.“

Ertu með hnút í maganum fyrir útgáfunni?

„Já!“ Ásdís hlær. „Það er ekkert víst að það sé rétt að gefa hana út. Ég hef haft það prinsipp í lífinu að ef ég er efins þá segi ég nei. Ég braut það prinsipp þegar ég gaf út þessa bók. Ég hef verið efins og ég er enn efins. Það eru rök með og á móti. Rökin á móti eru þau að þetta er svo óbærilega persónulegt. Svo persónulegt að þegar ég sit hérna á móti þér get ég ekki einu sinni sagt þér hvað stendur þarna, bara get það ekki! Fæ mig ekki til þess,“ segir hún.

„Rökin með eru þau að kannski hjálpar þetta einhverjum að vinna með sínar eigin tilfinningar. Það eru kannski fimm manns búnir að lesa handritið. Sumir sögðu bara: ekki gera þetta, bara ekki! Þetta er of stórt skref fyrir þig. Þú ert opinber persóna og átt að halda þínu lífi fyrir þig og þína. En svo hugsaði ég með mér, og það er kannski einhver bilun, en að gefa út bókina var ákveðið skref fyrir mig að takast á við þessa sögu. Og ég var tilbúin til þess núna. Ég hugsaði með mér að ég yrði aldrei sátt við það þegar að frá líður að hafa verið svo kjarklaus að ég þyrði ekki að segja frá. Og þó það sé erfitt, vil ég frekar hafa verið kjörkuð og gera mistök en að þora ekki að takast á við hlutina.“

Þurfti að standa sig

Saga Ásdísar er vissulega ólík sögu móður hennar sem upplifði höfnun og harðræði. Ásdís fékk gott atlæti og var gott barn sem stóð sig vel í skóla og hafði alla tíð mikinn metnað. Hún ólst upp í Ólafsvík, Svíþjóð, Noregi og síðar á Akranesi þar til hún kláraði stúdentspróf. Faðir hennar, Bragi, var sjómaður og síðar verkstjóri í frystihúsi og verksmiðju.

Mamma hennar var heimavinnandi og starfaði við ýmislegt en lauk síðar sjúkraliðanámi.

Hún segist, ólíkt bræðrum sínum, hafa verið fyrirmyndarunglingar. „Ég hef nokkrum sinnum smakkað áfengi en aldrei byrjað að drekka, aldrei tekið smók af sígarettu eða prófað fíkniefni. Ég hef aldrei þorað að byrja og nú er ég orðin of gömul,“ segir hún hlæjandi.

Ásdís gekk menntaveginn, fór í Harvard, og síðar gegndi hún ýmsum ábyrgðarstöðum í þjóðfélaginu.

Þú hefur náð mjög langt, menntað þig, verið metnaðarfull. Er eitthvað í þinni fortíð sem stuðlaði að þessu?

„Algjörlega. Mamma sagði að ég hefði ekkert val, ég þyrfti að standa mig. Í sögunni kemur það fram að báðir bræður mínir eru teknir af henni og þó að hún fái þá aftur síðar var hún alltaf hrædd. Og ég vissi að það hefði gengið á ýmsu og ég vissi það að við værum undir smásjá og að ég þyrfti að standa mig. Og þá gerir maður það og maður venst því. Maður þarf að sýna heiminum að allt sé í lagi, það sem gerist innan veggja heimilisins kemur öðrum ekki við og maður lætur það ekki slá sig út af laginu,“ útskýrir Ásdís og segir að móðir sín hafi gert miklar kröfur til hennar. Hún viðurkennir að oft hafi verið mikið basl hjá foreldrum hennar, sem og fleirum í Ólafsvík.

Ég sem hélt að þú værir fædd með silfurskeið í munni.

„Ekki alveg!“ segir hún og hlær.

„Og ég sakna þess ekki því silfur færir börnum enga sérstaka hamingju. Mér líður eins og ég hafi fengið allt sem ég þurfti og skipti máli í mínu lífi. Ég átti góða mömmu og pabba. Ég fékk tíma, athygli, ást, viðurkenningu, stuðning. Ég fékk fullt af tilfinningum. Ég fékk innsýn í svo margt og ég er rosalega þakklát fyrir það.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert