„Við erum að tala saman“

Úr skólastofu.
Úr skólastofu. mbl.is/Eggert

„Við erum að vinna, við erum að tala saman, það styttist í mánaðamótin og það er pressa á okkur,“ segir Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara, en samninganefndir félagsins og Sambands íslenskra sveitarfélaga sitja nú á fundi í húsnæði ríkissáttasemjara.

Fundað hefur verið með hléum síðan snemma í morgun.

Ólafur segir að með því að segja að pressa sé á samninganefndunum eigi hann m.a. við að fjölmargir kennarar hafi sagst ætla að ganga út úr skólunum á hádegi á morgun, hafi ekki samist fyrir þann tíma. Þá hafa borist fréttir af því að á morgun muni enn bætast í þann hóp sem þegar hefur sagt starfi sínu lausu. 

Spurður um gengi viðræðnanna svarar Ólafur: „Við vinnum á meðan við teljum að það sé möguleiki á að ná saman. Það er ekkert í höfn. En Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari stýrir þessu og hún ákveður um framhaldið.“

Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara.
Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara. Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert