Segja 6 ketti hafa drepist af völdum eitrunar

Íbúum í nágrenni Hellisgerði hefur verið bent á að halda …
Íbúum í nágrenni Hellisgerði hefur verið bent á að halda köttum sínum inni þar til frekari upplýsingar liggja fyrir um málið. mbl.is

Félagar í dýraverndarfélaginu Villikettir hafa haft fyrirspurn af því að sex kettir hafi drepist undanfarið í nágrenni Hellisgerði í Hafnarfirði af völdum mögulegrar frostlagareitrunar. Þetta staðfestir Arndís Kjartansdóttir, ritari í stjórn Villikatta, en mbl.is greindi frá því fyrir helgi að Dýraspítalinn í Garðabæ hefði fengið til sín þrjá ketti með einkenni sem minntu á frostlagareitrun.

Ekki hefur enn verið staðfest hvort um slíka eitrun er að ræða, þó að flest bendi til þess og hafa mál tveggja kattanna þegar verið tilkynnt til lögreglunnar í Hafnarfirði. Lögreglu barst þá einnig tilkynning um helgina um mat sem settur hafði verið út á svæðinu í kringum Hellisgerði og var hann fjarlægður af lögreglu í kjölfarið.

Frétt mbl.is: Heita verðlaunafé fyrir upplýsingar

Halda utan um söfnun á verðlaunafé

Villikett­ir greindu frá því á Facebook síðu sinni í gærkvöldi að félagið hefði tekið að sér að halda utan um söfn­un á verðlauna­fé handa þeim sem veit­ir upp­lýs­ing­ar „sem leiða til ákæru á þeim sem er ábyrg­ur fyr­ir því að eitra fyr­ir kött­um í ná­grenni Hell­is­gerðis í Hafnar­f­irði,“ að því er sagði í tilkynningunni.

Arndís segir í samtali við mbl.is að mikil umræða sé um málið á kattasíðum á samfélagsmiðlum. „Okkur er misboðið og þetta er ekki í fyrsta skipti sem þetta er að gerast,“ segir hún og minnir á að talið sé að kettir í Hveragerði, Selfossi og Sandgerði og Austurlandi hafi drepist vegna eitrunar á undanförnum mánuðum, og nú síðast í Hafnarfirði.

Frétt mbl.is: Eitrað fyrir ketti í kringum Hellisgerði

Mikill reiði vegna málsins

„Fólk er mjög reitt yfir þessu og það var mikið þrýst á að gera eitthvað í málunum.“ Málið sé líka Villiköttum skylt, því að kettinum Frosta, sem dó í síðustu viku var bjargaði af félaginu í fyrrasumar og var því rúmlega ársgamall þegar hann dó. „Manni finnst sárt þegar búið er að hafa fyrir því að bjarga þessum litlu krílum inn og finna þeim góð heimili að þeir séu drepnir svona.“

Arndís segir hugmyndina að verðlaunafénu upphaflega hafa kom frá tveimur einstaklingum og félagið hafi tekið að sér að halda utan um söfnunina. „Markmið okkar er að verðlaunaféð nái 100.000 kr. en við vitum ekki enn hvort við náum þeirri upphæð,“ segir hún og bætir við að þegar hafi safnast hátt í 50.000 kr. og mikill hiti sé í fólki. „Við vonum til þess að þetta leiði til þess að málið upplýsist.“

Að sögn Helga Gunnarssonar, lögreglufulltrú í Hafnarfirði, hafa enn engar ábendingar borist. „Ef menn eru að gera þetta, þá er spurning hvað þeir segja mörgum frá,“ segir hann og bætir við að það sé vissulega áhyggjuefni ef um eitrun sé að ræða og það verði skoðað eins og önnur mál sem koma upp.

Íbúar hvattir til að halda dýrum sínum inni

„Við höfum fréttir af að það séu sex kettir sem hafa lent í þessu núna,“ segir Arndís og kveður kettina alla hafa drepist, enda sé sé ekkert hægt að gera sé ekki brugðist mjög fljótt við eitruninni og dýrin deyi kvalarfullum dauðdaga.

Hún segir íbúa í nágrenni Hellisgerði vera vakandi fyrir þessu og þannig hafi m.a. fundist matur sem settur hafði verið út, en töluvert er af köttum í hverfinu. „Síðan er verið að hvetja fólk á þessu svæði til að halda dýrunum sínum inni þar til eitthvað er vitað meira um málið.“

Arndís bendir á að sumstaðar erlendis sé settur beiskur vökvi út í frostlögin sem heldur dýrum frá, en frostlögur hefur sætukeim sem dýrum og jafnvel börnum finnst bragðgóður.

„Ég veit til þess að beiskur vökvi er settur út í frostlögin í Bandaríkjunum og það hefur jafnvel verið sett í lög í sumum ríkjum, þar sem þetta veldur það miklum eitrunaráhrifum hjá dýrum og börnum.“

Þeim sem búa yfir upplýsingum um málið er bent á að hafa hafa sam­band við lög­regl­una í síma 444-1000 eða senda tölvu­póst á abend­ing@lrh.is 

Frosti var kettlingur þegar Villikettir björguðu honum og komu á …
Frosti var kettlingur þegar Villikettir björguðu honum og komu á heimili. Hann er einn þeirra katta sem drapst úr mögulegri frostlagareitrun. Ljósmynd/Villikettir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert