Nauðsynlegt að vera á staðnum

Fannar Jónasson, nýr bæjarstjóri Grindavíkur, mætir til starfa strax eftir …
Fannar Jónasson, nýr bæjarstjóri Grindavíkur, mætir til starfa strax eftir áramót. mbl.is/Ómar Óskarsson

Bæjarstjórastarfið leggst vel í Fann­ar Jónas­son, sem tilkynnt var í gær að hefði verið ráðinn bæj­ar­stjóri Grinda­vík­ur út nú­ver­andi kjör­tíma­bil, eða fram í maí 2018. Fannar tekur við af Ró­berti Ragn­ars­syni, sem hefur gegnt starfinu frá 2010.

„Mér líst mjög vel á þetta sveitarfélag. Það er kraftmikið og öflugt sveitarfélag sem stendur styrkum stoðum,“ segir Fannar. „Ég er afar þakklátur bæjarstjórninni fyrir að sýna mér þetta traust og hlakka verulega til þessa verkefnis.“ Hann segist hafa fylgst með Grindavík úr fjarlægð til þessa, en fundist vera reisn yfir bænum, m.a. fyrir tilstilli kraftmikils og þróttmikils atvinnulífs, menningarlífs og öflugs íþróttastarfs. 

Frétt mbl.is: Fannar ráðinn bæjarstjóri Grindavíkur

Fannar er viðskiptafræðingur að mennt og með MBA gráðu frá Háskóla Íslands. Hann hefur ekki gegnt starfi bæjarstjóra áður, en býr yfir um 20 ára reynslu af sveitastjórnarmálum.

„Ég var oddviti í Rangárvallahreppi og því fylgdu ýmis nefndarstörf og stjórnaformennska eins og gengur og gerist,“ segir Fannar, sem einnig starfaði á vettvangi sveitarstjórnarmála á Suðurlandi í gegnum Samband íslenskra sveitarfélaga.

Hlakka til að taka þátt í bæjarlífinu

Hann mætir til starfa á bæjarskrifstofuna strax eftir áramót og kveðst þá munu einhenda sér að komast inn í starfið. „Það er af mörgu að taka, en ég hef gott fólk að til að leiðbeina mér og mun fara í það núna strax á nýju ári.“ 

Fannar er búsettur í Reykjavík ásamt eiginkonu sinni Hrafnhildi Kristjánsdóttur og yngstu dóttur þeirra hjóna. Flutningar til Grindavíkur eru þó í kortunum og er fjölskyldan þegar komin með húsnæði í bænum.

„Þó það hafi ekki verið áskilið í auglýsingunni, þá fannst mér blasa við að það væri nauðsynlegt fyrir bæjarstjóra að vera á staðnum þó ekki sé nema eitt og hálft ár eftir af þessu kjörtímabili,“ segir Fannar. „Þetta snýst ekki bara um að sitja á bæjarstjórnarskrifstofunni. Við fjölskyldan viljum líka taka þátt í mannlífinu á þessu svæði og hlökkum mjög til þess, þannig að það kom eiginlega ekki annað til greina af okkar hálfu ef ég fengi ráðninguna.“

mbl.is