Þorsteinn ræður tvo aðstoðarmenn

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir og Karl Pétur Jónsson, aðstoðarmenn Þorsteins Víglundssonar, …
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir og Karl Pétur Jónsson, aðstoðarmenn Þorsteins Víglundssonar, félags- og jafnréttismálaráðherra.

Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, hefur ráðið sér tvo aðstoðarmenn til starfa í velferðarráðuneytinu, þau Karl Pétur Jónsson og Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef ráðuneytisins.

Karl Pétur Jónsson er fæddur 30. ágúst 1969 í Kópavogi. Hann lauk stúdentsprófi frá Verslunarskóla Íslands árið 1991, BA prófi í stjórnmálafræði frá HÍ 2003 og MBA gráðu frá HR 2008. Karl Pétur starfaði á markaðsdeild Frjálsrar fjölmiðlunar 1997-1999, stofnandi og ráðgjafi hjá almannatengslafyrirtækinu Inntaki 1999-2006.

Karl Pétur starfaði hjá fjárfestingabankanum Askar Capital frá 2007-2009 og hefur frá þeim tíma verið ráðgjafi í almannatengslum ásamt því að framleiða leikverk og sjónvarpsþætti. Karl Pétur er varabæjarfulltúi á Seltjarnarnesi þar sem hann einnig situr í skólanefnd og jafnréttisnefnd. Hann er kvæntur Guðrúnu Tinnu Ólafsdóttur og eiga þau fimm börn á aldrinum 5-19 ára. 

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir er fædd 23. maí 1978 í Reykjavík. Hún lauk stúdentsprófi frá MR 1998, lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands 2005, LL.M. gráðu frá Columbia University í New York 2011 og er með diplómagráðu í afbrotafræði frá HÍ. Þorbjörg Sigríður hefur verið deildarforseti lagadeildar Háskólans á Bifröst frá 2015.

Hún starfaði sem aðstoðarsaksóknari og deildarstjóri ofbeldisbrotadeildar hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, var aðstoðarmaður dómara í Héraðsdómi Reykjavíkur, vann við rannsóknarstörf ásamt Hildi Fjólu Antonsdóttur hjá EDDU – Öndvegissetri við HÍ við rannsókn á einkennum nauðungarmála og málsmeðferð þeirra hjá lögreglu og ákæruvaldi á árunum 2008 og 2009.

Þorbjörg var aðstoðarsaksóknari hjá ríkissaksóknara áður en hún tók til starfa sem deildarforseti lagadeildar Háskólans á Bifröst. Pistlahöfundur í Fréttablaðinu og einnig í Viðskiptablaðinu. Hefur setið í stjórn UNIFEM, í stjórn Kvennaathvarfsins og ritstjórn 19. júní tímarits Kvenréttindafélags Íslands. 

Þorsteinn Víglundsson.
Þorsteinn Víglundsson. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert