Prófin fyrir kerfið ekki nemendur

Grunnskólanemendur þurfa að þreyta samræmt könnunarpróf.
Grunnskólanemendur þurfa að þreyta samræmt könnunarpróf. mbl.is/Steinunn Ásmundsdóttir

Skólastjóra Nesskóla í Neskaupstað var neitað um undanþágu fyrir tvo grunnskólanemendur í 10. bekk um að þreyta samræmt könnunarpróf í ensku. Nemendurnir náðu grunnskólamarkmiðunum í ensku í 9. bekk og hafa auk þess lokið fyrsta áfanga í ensku í framhaldsskóla og eru í áfanga númer tvö.     

Þeir nemendur sem hafa lokið markmiðum grunnskóla í ákveðinni grein og hafið nám á framhaldsskólastigi eiga að þreyta samræmd könnunarpróf. Þetta kemur fram í svari Menntamálastofnunar til skólastjórans um beiðni um undanþágu.

Einkennilegt að veita ekki undanþágu

„Mér finnst mjög einkennilegt að geta ekki veitt undanþágu fyrir nemendur sem eru lengra komnir. Þeir hafa sannarlega sýnt að þeir hafa náð markmiðunum grunnskólans. Það er ekki verið að hugsa um hag nemendanna heldur kerfisins,“ segir Einar Már Sigurðarson skólastjóri Nesskóla í Neskaupstað.

Hann er ekki sáttur við svörin sem hann fékk frá Menntamálastofnun. Sérstaklega þar sem fresta þurfti prófinu í ensku í fyrra vegna þess að rafrænt próf var ekki tilbúið frá Menntamálastofnun í mars í fyrra. Þar af leiðandi þurfa nemendur í 10. og 9. bekk að taka könnunarprófið í ensku núna í mars. 

Prófin fyrir nemendur ekki kerfið

„Ég spyr: Eru ekki prófin fyrst og fremst fyrir nemendurna sjálfa til að átta sig á hvar þeir standa? Þeir taka prófin fyrir sjálfan sig,“ segir Einar Már. Markmiðið með könnunarprófinu er að nemendur fái tíma í 10. bekk til að ná tökum á því sem upp á vantar til að ná markmiðum grunnskólans í tilteknum greinum, að sögn Einars Más.

„Ég hef reynt að temja mér að hugsa fyrst og fremst um hag nemenda. En ef ég gerist kerfiskarl og sest í hinn stólinn þá myndu þessir nemendur að sjálfsögðu hækka meðaleinkunnina í prófinu,“ segir hann og bendir á að þetta snúist ekki um einkunnir og meðaltöl heldur ákveðin markmið sem nemendur þurfa að ná.

Í ofan á lag bendir hann á að það sé einkennilegur hvati fyrir nemendur að þreyta próf fyrir einhvern annan en sjálfan sig sem yrði þá í þessu tilfelli fyrir skólann og kerfið sjálft.

mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert