Bankanum ber að endurgreiða færslurnar

Parið stefndi Arion banka hf. vegna færslna á kredikorti sem …
Parið stefndi Arion banka hf. vegna færslna á kredikorti sem það vildi fá felldar niður. Parið hafði betur í héraðsdómi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arion banka hf. ber að fella niður kreditkortafærslur pars sem lenti í svikum við kaup á spjaldtölvu á Tenerife árið 2015. Greiðslurnar sem um ræðir námu um 1,4 milljónum króna. Samkvæmt niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur ber bankanum einnig að greiða parinu 1,1 milljón króna í málskostnað.

Parið, sem þá var í hjúskap, var saman á ferðalagi á Tenerife í apríl 2015. Karlinn ákvað að kaupa spjaldtölvu í ákveðinni verslun og greiddi hann fyrir tölvuna með peningum. Honum var ekki afhent tölvan en sagt að það þyrfti að uppfæra hana. Hann mætti svo síðar í búðina til að fá tölvuna en var þá ráðlagt að greiða fremur kaupverðið, 365 evrur, með VISA-greiðslukorti til að fá tveggja ára ábyrgðartryggingu. Maðurinn fékk peningana sem hann hafði greitt fyrir tölvuna endurgreidda og greiddi sömu fjárhæð með kreditkorti sínu. Ekki var deilt um lögmæti þeirrar færslu.

Sló PIN-númer fimm sinnum inn

Parinu var svo tjáð að til viðbótar þyrfti að senda beiðni fyrir ábyrgð hjá VISA. Stóð parið í þeirri trú að þær færslur ættu að vera án fjárhæðar. Maðurinn staðfesti svo fimm sinnum færslur með PIN-númeri sínu í tveimur posum. Fyrstu færslunni var synjað og kom síðar í ljós að skýringin var sú að fjárhæðin sem slegin hafði verið inn, án þess að maðurinn vissi það, fór yfir heimild hans á kortinu. Annarri færslunni var einnig synjað en þriðja færslan, að upphæð 4.680 evrur, var hins vegar samþykkt. Fjórðu og fimmtu færslunum var svo synjað.

Afgreiðslumaðurinn sagði honum hins vegar að í öllum tilvikum hefðu færslurnar ekki tekist. Því var ákveðið að sækja konuna og nota hennar kort í sama skyni.

Starfsmaður verslunarinnar ók manninum á hótelið að sækja konuna. Konan framvísaði svo sínu korti og staðfesti þar þrjár færslu með PIN-númeri. Samkvæmt gögnum var fyrsta færslan, 4.580 evrur, heimiluð. Tveimur öðrum færslum var hins vegar hafnað.

Maðurinn segist aldrei hafa séð þær fjárhæðir sem hann og konan voru blekkt til að staðfesta. Þau hafi ekki fengið kvittun úr posa. 

Hringdu beint í Valitor

Við meðferð málsins fyrir héraðsdómi bentu Arion banki og Valitor, sem parið stefndi, á að kunningsskapur hefði myndast milli parsins og afgreiðslumannanna í umræddri verslun. Þau hefðu t.d. farið saman út að borða og í golf. 

Tveimur dögum eftir viðskiptin í búðinni fékk parið skilaboð frá Arion banka um að kreditkort þeirra væru komin yfir úttektarfjárhæð. Í kjölfarið höfðu maðurinn og konan samband við þjónustuver Valitors og voru þau samtöl hljóðrituð. Var þeim sagt að umrædd verslun væri að reyna að fá heimild til skuldfærslunnar. Var svo erlendri notkun korta þeirra lokað með þeirra samþykki og þeim leiðbeint um að leggja fram skriflega kvörtun þegar og þau kæmu til landsins.

Það gerðu þau tveimur dögum síðar. Reynt var að stöðva færslurnar en það tókst ekki vegna afstöðu færsluhirðis verslunarinnar á Tenerife. Konan og maðurinn kærðu málið síðar til lögreglu og leituðu aðstoðar utanríkisþjónustunnar til að fá leiðréttingu mála sinna gagnvart umræddum söluaðila en án árangurs.

Sögðu parið hafa sýnt „stórfellt gáleysi“

Í málinu byggði Arion banki synjun sína á endurgreiðslu færslnanna m.a. á því að ekki hefði verið um óheimila kortanotkun að ræða í skilningi laga um greiðsluþjónustu og að honum hefði ekki verið skylt að fella niður hinar umdeildu færslur. Þau hefðu samþykkt þær með PIN-númeri. Með því að gera slíkt væri korthafi ábyrgur fyrir öllum úttektum.

Þá byggði bankinn einnig mál sitt á því að parið hefði sýnt af sér stórfellt gáleysi. Því hefði m.a. borið að gæta varúðar með hliðsjón af bágbornu útliti verslunarinnar. Starfsmenn búðarinnar hafi einnig sýnt óeðlilega hegðun gagnvart parinu, m.a. með „vináttulátum og undanhætti“ við afhendingu vöru.

Niðurstaða héraðsdóms er hins vegar sú að hafið sé yfir vafa að parinu hafi ekki verið ljósar þær fjárhæðir sem þau staðfestu með PIN-númeri. Fjárhæðirnar hafi verið færðar inn af starfsmönnum verslunarinnar án þess samþykkis í því skyni að hafa af því fé. „Ítrekaðar komur stefnenda í verslunina og lengd dvalar þeirra þar styrkir þessa niðurstöðu fremur en hið gagnstæða,“ segir í niðurstöðu dómsins. 

Fengu ekki upplýsingar

Í niðurstöðunni segir ennfremur að það sé álit dómsins að parinu hafi, er það hafði samband við Valitor, ekki verið veittar þær upplýsingar sem það óskaði eftir og átti skýlausan rétt til, s.s. hver fjárhæðin hafi verið. „Var stefnendum, sem á þessum tíma dvöldu enn á Tenerife, með þessu gert mun erfiðara fyrir en ella við að tryggja sér sönnun fyrir því að í reynd hafði hvorki vara né þjónusta komið fyrir þær greiðslur sem þeim höfðu þegar verið færðar til skuldar.“ Svo segir: „Þótt á það verði fallist að stefnendur hafi sýnt af sér vangæslu þegar þau slógu inn PIN-númer sín með framangreindum hætti verður ekki talið að stefnendur hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi við meðferð korta sinna eða upplýsinga þeim tengdra, eða brotið þannig gegn kortaskilmálum stefnda, að þau hafi firrt sig rétti til þess að krefjast síðar niðurfellingar á færslum samkvæmt fyrrgreindum skilmálum.“

Dómsorð eru þau að viðurkennt er að Arion banka hf. beri að fella niður kortafærslurnar. Þá skal hann einnig greiða parinu sameiginlega 1,1 milljón króna í málskostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert