Breytingar á eignarhaldi hjá Árvakri

Eyþór Arnalds á nú 26,62% hlut í Árvakri útgáfufélagi Morgunblaðsins …
Eyþór Arnalds á nú 26,62% hlut í Árvakri útgáfufélagi Morgunblaðsins og mbl.is. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Breytingar hafa orðið á eignarhaldi í Þórsmörk ehf., sem er eigandi Árvakurs hf., útgefanda Morgunblaðsins, mbl.is og fleiri miðla. Samherji hefur selt allan hlut sinn til Eyþórs Arnalds. Samherji átti 18,43% hlut í gegnum félagið Kattarnef ehf. og fer með þessu úr hluthafahópnum. Að auki kaupir Eyþór 6,14% hlut Síldarvinnslunnar hf. og 2,05% hlut Vísis hf., alls 26,62%.

Þorsteinn Már Baldvinssdn forstjóri Samherja.
Þorsteinn Már Baldvinssdn forstjóri Samherja. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Viðskiptin eru gerð með fyrirvara um að aðrir hluthafar falli frá forkaupsrétti.

 Ánægja með hvernig til tókst

Af þessu tilefni segir Þorsteinn Már Baldvinsson:

„Á umbrota- og óvissutímum árið 2009, þegar þörf var á upplýsandi og ábyrgum fréttaflutningi, tók Samherji þá ákvörðun að taka þátt í að endurreisa Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins, í samstarfi við aðra. Við erum ánægð með hvernig til tókst, blaðið hefur náð að halda velli, staðið vörð um faglega blaðamennsku og miðlað upplýsingum um mál sem vörðuðu þjóðina gríðarlega miklu og hafa nú sum hver verið farsællega til lykta leidd. Nú eru því uppi aðrar aðstæður og tímabært að hverfa af þessum vettvangi þegar kaupandi lýsti áhuga á bréfum félagsins. Samherji óskar nýjum hluthafa og Árvakri velgengni í framtíðinni.“

 Aukið gildi traustra og ábyggilegra fjölmiðla

Eyþór Laxdal Arnalds segir um kaup sín í Árvakri:

„Fjölmiðlar og mikilvægi öflugrar sjálfstæðrar fjölmiðlunar hafa lengi verið mér sérstakt hugðarefni. Mér er það því fagnaðarefni að koma með þessum hætti að Árvakri, útgefanda Morgunblaðsins, eins elsta dagblaðs landsins sem gefið hefur verið óslitið út síðan 1913, og fleiri miðla. Ég tel framtíðina felast í samspili hefðbundinna miðla á borð við dagblöð og svo nýmiðlunar, svo sem á netinu. Í hafsjó misáreiðanlegra fregna sem beinast að fólki úr öllum áttum verður gildi traustra og ábyggilegra fjölmiðla skýrara og starfsemi þeirra mikilvægari upplýstri umræðu í lýðræðissamfélagi. Með sína fjölbreyttu útgáfustarfsemi er Árvakur í kjörstöðu til að nýta styrk hvers og eins miðils, bæði til afþreyingar og miðlunar ábyggilegra frétta og ítarlegra umfjallana. Árvakur er útgáfufélag með langa sögu og á framtíðina fyrir sér.“

Sigurbjörn Magnússon.
Sigurbjörn Magnússon. mbl.is/Rax


Fagnar nýjum hluthafa

Sigurbjörn Magnússon, stjórnarformaður Árvakurs hf., segist á þessum tímamótum vilja þakka þeim hluthöfum sem nú hverfi frá félaginu fyrir stuðning þeirra við starfsemi þess og fyrir ánægjulegt samstarf. „Um leið fagna ég því að fá inn nýjan og kraftmikinn aðila að félaginu, sem hefur mikinn áhuga á að starfa með okkur að þeirri uppbyggingu sem nú stendur yfir hjá Árvakri og er framundan á næstu misserum. Árvakur hefur alla tíð haldið uppi traustum fréttaflutningi og vandaðri umfjöllun um málefni sem varða hagsmuni allra landsmanna. Á þeim umbrotatímum sem nú eru í fjölmiðlum, bæði hér á landi og erlendis, er afar mikilvægt að sú kjölfesta sem Árvakur hefur verið standi styrkum fótum.“

Morgunblaðshúsið í Hádegismóum
Morgunblaðshúsið í Hádegismóum mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »