Guðni Th. lagði mannorðið að veði

Brandur og Alma Ösp kærasta hans stoppa ásamt öðrum í …
Brandur og Alma Ösp kærasta hans stoppa ásamt öðrum í teyminu í Vík í Mýrdal í kvöld. Ljósmynd/úr einkasafni

Brand­ur Bjarna­son Karls­son, sem er lamaður og fer ferða sinna í hjóla­stól, lagði í dag upp í hringferð um landið til að vekja athygli á aðgengi fatlaðra. Fyrsti viðkomustaður var Bessastaðir þar sem aðgengi er ábótavant. Forsetinn er þó meðvitaður um málið og hefur heitið því að bæta aðstöðuna.

„Ég geri nú ekki ráð fyrir að þetta hafi breyst mikið,“ sagði Brandur í símasamtali við mbl.is er hann var á leið til Víkur á Mýrdal. Hann kvaðst þó með ferð sinni vilja vekja aftur athygli á því hversu erfitt er að ferðast um Ísland í hjóla­stól.

„Þetta komst svolítið inn í umræðuna þegar við fórum í ferðina fyrir tveimur árum og yfirmaður Ríkiseigna hafði m.a. samband við okkur fljótlega eftir að við komum aftur til Reykjavíkur til að spyrja hvort við hefðum gert einhverja greiningu. Þannig að ríkisvaldið var þá aðeins að reyna að taka við sér,“ segir hann. „Það er því von okkar að við náum með þessu að vekja fólk til umhugsunar og kanna í leiðinni hvort eitthvað hafi breyst.“

Þau Ýmir (t.v.) og Alma Ösp (t.h.) eru með Brandi …
Þau Ýmir (t.v.) og Alma Ösp (t.h.) eru með Brandi (fyrir miðju) á hringferðinni að þessu sinni. Gist verður í Vík í nótt og haldið áfram til Egilsstaða á morgun. Ljósmynd/Úr einkasafni

Forsetinn meðvitaður um ástandið

Hluti teymisins, sem fer með Brandi hringinn nú, er sá sami og síðast. „Síðan eru nokkrir sem ætla að fylgja okkur kafla og kafla af leiðinni,“ segir Brandur.

Líkt og síðast þá er áætlað að ferðin taki fimm daga og líkt og þá verður komið við í Vík í Mýr­dal, Héraði, á Ak­ur­eyri og Hömr­um og mun teymið halda fundi á hverj­um stað fyr­ir sig þar sem fólki verður boðið að koma og taka þátt í umræðum. Ferðalaginu lýkur síðan í Reykja­vík næsta laugardag. „Við ætlum að enda með einum fundi þar og reyna að draga þar saman úttekt á því hvernig upplifun okkar var.“

Brandur hóf för sína í morgun með viðkomu hjá Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands á Bessastöðum. Hann segir aðgengi fyrir fatlaða vera ábótavant í forsetabústaðnum. „En forsetinn er meðvitaður um þetta og lofaði okkur að gera allt sem hann getur til að laga aðstöðuna,“ sagði Brandur og bætti við að regluverk varðandi bygginguna hamlaði slíkum aðgerðum þó eitthvað.

Hann er þó bjartsýnn á að ástandið á Bessastöðum verði orðið betra ef hann hefur þar viðkomu í sambærilegri hringferð eftir tvö ár. „Ég reikna með því,“ segir Brandur. „Hann lagði svolítið mannorð sitt að veði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert