Hópurinn fær nýjan bílstjóra

Rútan var á leið frá Dubrovnik til Porec þegar bílstjórinn …
Rútan var á leið frá Dubrovnik til Porec þegar bílstjórinn sofnaði undir stýri.

„Við fáum nýjan bílstjóra,“ segir Ólafur Þór Gunnarsson í samtali við mbl.is. Ólafur er staddur í Króatíu í ferð á vegum Bændaferða en í fyrradag urðu Ólafur og samferðamenn hans fyrir því óláni að bílstjóri, sem ók hópnum frá Dubrovnik til Porec sofnaði undir stýri, með þeim afleiðingum að rútan hafnaði utan í vegriði.

„Skrifstofan á Íslandi fór beint í málið, þeir höfðu ekkert frétt af þessu,“ útskýrir Ólafur, en hann og aðrir farþegar voru í fyrstu undrandi yfir því að ekkert hafi verið rætt við hópinn í kjölfar atviksins og látið hafi verið eins og ekkert hafi í skorist. „Við erum ánægð með viðbrögð Bændaferða, þeir tóku á málinu, gengu í það og það verður nýr bílstjóri sem keyrir á morgun,“ bætir hann við, en á morgun er förinni heitið til Salzburg. Þaðan fer hópurinn svo til Munchen á sunnudag þaðan sem flogið verður heim til Íslands.

„Þetta gerðist á hraðbraut og það var enginn bíll að koma á móti. Við vorum á hægri akrein á 100 km hraða og hann sofnar og færist hægt og rólega yfir til vinstri og á vegriðið og hendist þannig inn á veginn aftur,“ útskýrir Ólafur og leiðréttir þannig það sem fram kom í frétt mbl.is um málið í gær, en þar sagði að rútan hafi stefnt óðfluga í átt að vinstri akrein og þar hafi komið bíll á móti. Þá sé rútubílstjórinn þýskur en ekki króatískur líkt og haldið var fram í fyrri frétt.

Ólafur kveðst heilt yfir vera ánægður með ferðina sem hafi verið ævintýri líkust. „Þetta var allrosalegt, það verður að segjast alveg eins og er,“ segir hann um atvikið. „Þetta er stór rúta, mikill hraði og lendir þarna og hefði hún ekki komið svona flatt á vegriðið þá hefði ekki þurft að spyrja að leikslokum,“ bætir hann við. „Það er ekki ofsögum sagt að við erum stálheppin að þetta fór ekki verr.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert