Vopnuðum ránum í lyfjabúðum fjölgar

Hér var vopnað rán framið á þriðjudaginn. Yfirleitt eru lyfjaræningjar …
Hér var vopnað rán framið á þriðjudaginn. Yfirleitt eru lyfjaræningjar langt leiddir fíkniefnaneytendur sem fremja verknaðinn í fljótræði. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vopnuðum ránum í lyfjabúðum hefur fjölgað talsvert á undanförnum árum. Reyndar gildir það almennt um vopnuð rán hér á landi. Á rúmum mánuði hafa sjö slík rán verið framin á höfuðborgarsvæðinu. Þeir sem ræna apótek eru yfirleitt fíklar sem oftast eru að leita efna til að halda áfram neyslu á háu stigi. Þegar ránin eru framin eru þeir gjarnan í vímu og geta verið stórhættulegir eins og atvikið í Garðabæ á þriðjudaginn er til vitnis um. Maður í annarlegu ástandi kom snemma morguns í Apótek Garðabæjar og hótaði starfsfólki með öxi. Það kom sér á brott en ræninginn flúði í bifreið sem lögreglan náði að stöðva með því að aka á hana, en glæfraakstur ræningjans á flóttanum skapaði almannahættu og eignatjón á bifreiðum sem hann ók á.

Í byrjun mars ruddist maður vopnaður hnífi inn í Apótekarann á Bíldshöfða. Huldi hann andlit sitt með klút og krafðist lyfja og peninga. Hafði hann á brott með sér rúmar 34 þúsund krónur í reiðufé auk lyfja að verðmæti rúmar 80 þúsund krónur. Lögregla hafði uppi á manninum nokkrum dögum seinna.

Vopnuð rán í lyfjabúðum eiga sér ekki aðeins stað á höfuðborgarsvæðinu. Í byrjun febrúar var gefin út ákæra á hendur Bandaríkjamanni sem framið hafði slík rán í Apóteki Ólafsvíkur og Apóteki Suðurnesja í nóvember í fyrra. Eins og ræninginn á Bíldshöfða huldi hann andlit sitt og otaði hníf að starfsfólki apótekanna. Tókst honum að fá bæði lyf og peninga. Grunur lék á því að sami maður hefði verið að verki þegar vopnuð rán voru framin í Bílaapótekinu í Kópavogi í september og í Suðurveri í nóvember.

Helgi Gunnlaugsson.
Helgi Gunnlaugsson.

Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur segir að það hafi verið einkenni atvika af þessu tagi á undanförnum árum að ránin séu illa skipulögð og framin í fljótræði, yfirleitt vegna mikillar þarfar fyrir vímuefni. „En þetta eru jafn alvarlegir atburðir fyrir það,“ segir hann. Vopnuðu ránin að undanförnu minni á bylgju sem gekk hér yfir fyrir um áratug. Þá hafi komið í ljós í viðtölum við afbrotamennina að þeir gerðu sér enga grein fyrir þeim afleiðingum sem ógnanir þeirra hefðu haft á starfsfólk, hvort sem var í apótekum, kjörbúðum eða bönkum. Þeir hafi borið því við að þeir hafi ekki ætlað að beita ofbeldi, aðeins ná í ránsfenginn, lyfjaskammt eða peninga.

Helgi segir að fólk sem verði fyrir skyndilegum ógnunum sé oft lengi að jafna sig og sé jafnvel frá vinnu í langan tíma. Sú viðbára að menn hafi ekki ætlað að beita ofbeldi sé lítils virði því menn hugsi ekki skynsamlega við slíkar aðstæður og geti misst stjórn á sér ef ekki er látið undan. Afbrotamennirnir eiga það sammerkt að vera í mikilli neyslu og brjóti af sér þegar þeir eru komnir í öngstræti. Þess vegna þurfi að vera til vettvangur sem menn í slíku ástandi geti leitað til og fengið hjálp og ráðgjöf. Nefnir hann Frú Ragnheiði Rauða krossins í því sambandi, sérinnréttaðan gamlan sjúkrabíl sem er ekið um götur höfuðborgarsvæðisins á kvöldin. Þar er boðið upp á hjúkrunarþjónustu og nálaskiptaþjónustu. Sums staðar erlendis geta langt leiddir fíkniefnaneytendur fengið lyfjaskammt á slíkum stöðum og er það gert til að minnka skaða af ástandi þeirra.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert