Málið allt stormur í vatnsglasi

Ragnar Þór Ingólfsson talar á Austurvelli á 1. maí.
Ragnar Þór Ingólfsson talar á Austurvelli á 1. maí. mbl.is/Árni Sæberg

Enginn vafi liggur á því að formaður VR hafi boðið sig fram til að halda ræðu á Ingólfstorgi þann 1. maí. Ástæða þess að hann gerði það ekki var sú að þegar hann bauð sig fram var búið að velja ræðumenn og ekki hægt að hliðra dagskránni. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá formanninum sjálfum, Ragnari Þór Ingólfssyni.

Greint var frá því í Morgunblaðinu í dag að Ragnar hafi farið fram á það við ASÍ að fá að halda ræðu á útifundi sambandsins á Ingólfstorfi „en ekki haft erindi sem erfiði“. Í Morgunblaðinu er því einnig haldið fram að Ragnar hefði í staðinn haldið ræðu á öðrum kröfufundi á Austurvelli af þeim sem eru „ósáttir við núverandi verkalýðsforystur.“

Nú hefur Ragnar sent frá sér yfirlýsingu þar sem fram kemur að enginn klofningur hafi átt sér stað á milli VR og ASÍ vegna þessa máls. Í yfirlýsingunni bendir Ragnar á að undirbúningsnefnd hátíðarhaldanna hafi engan sérstakan tölvupóst, að honum vitandi og þess vegna kom hann þeirri beiðni, að fá að halda ræðu á útifundi ASÍ á framfæri á stjórnarfundi VR við Ingibjörgu Ósk Birgisdóttur, sem situr í stjórn VR, er einn skipuleggjenda hátíðarhaldanna og á sæti í 1. maí nefnd fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna í Reykjavík. Ingibjörg er einnig varaforseti ASÍ.

„Það er ekki hlaupið að því að koma skilaboðum til fulltrúaráðsins þar sem engar sérstakar boðleiðir virðast sjáanlegar, hvorki heimasíða né tölvupóstfang eða símanúmer. Reyndar er litlar sem engar upplýsingar um fulltrúaráðið að finna á heimasíðu ASÍ eða helstu leitarvélum internetsins. Lá því beinast við að tala við einn af skipuleggjendum hátíðarhaldanna,“ segir Ragnar í yfirlýsingu sinni og bendir á að Ingibjörg hafi staðfest að Ragnar hafi beðið um að halda ræðu „og því á hennar ábyrgð að koma því áleiðis, ef málið þurfti formlega meðferð.“

Segir Ragnar að Ingibjörg hafi sagt að það væri ekki unnt að hliðra til í dagskránni vegna þess að þetta væri allt fyrirfram ákveðið og búið væri að velja ræðumenn.

„Ég tók því þá ákvörðun að tala á öðrum fundi á Austurvelli eftir að hafa gengið með félögum mínum niður að Ingólfstorgi. Það varð enginn klofningur á milli VR og ASÍ með þessari ákvörðun minni og því málið allt stormur í vatnsglasi. Klofningurinn varð þegar ég náði kjöri sem formaður VR enda var framboð mitt vantraustyfirlýsing á forystu ASÍ,“ segir í yfirlýsingu Ragnars.

„Ég skora á fulltrúaráð verkalýðsfélaganna í Reykjavík að koma sér upp tölvupóstfangi og pósthólfi svo unnt verði að koma formlegum beiðnum til þeirra í náinni framtíð.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert