Andlát: Jóhanna Kristjónsdóttir

Jóhanna Kristjónsdóttir.
Jóhanna Kristjónsdóttir. mbl.is/Einar Falur

Jóhanna Kristjónsdóttir, rithöfundur og blaðamaður, lést aðfaranótt fimmtudags á heimili sínu eftir langvarandi erfið veikindi.

Jóhanna fæddist 14. febrúar árið 1940. Hún fór snemma að fást við skriftir og skrifaði nokkrar skáldsögur á unga aldri. Vinsælust þeirra var „Ást á rauðu ljósi“. Hún gerðist blaðamaður á Morgunblaðinu þar sem hún skrifaði einkum um erlend málefni og ferðaðist víða til að afla efnis í viðtöl og greinar. Um leið starfaði hún að ýmsum félagsmálum og vann til dæmis brautryðjendastarf sem fyrsti formaður Félags einstæðra foreldra.

Jóhanna venti sínu kvæði í kross árið 1995 þegar hún lét af störfum á Morgunblaðinu og hóf arabískunám í Sýrlandi, Egyptalandi og Jemen. Hún varð formaður VÍMA, Vináttufélags Íslands og Mið-Austurlanda, árið 2004 og kynnti Mið-Austurlönd og fleiri landsvæði fyrir fjölda Íslendinga sem fararstjóri.

Jóhanna stofnaði Fatímusjóðinn 2005, sem í fyrstu beitti sér fyrir menntun stúlkna í Jemen og síðan fyrir margvíslegri neyðaraðstoð í Afríku og Mið-Austurlöndum. Þrátt fyrir veikindi síðustu ár hélt hún ótrauð áfram að safna í þágu góðra málefna fyrir Fatímusjóð og á dögunum kom út í nýrri útgáfu ljóðabókin „Á leið til Timbúktú“, safn ferðaljóða, sem gefin er út til styrktar börnum í Jemen og Sýrlandi.

Jóhanna skrifaði fjölda bóka, auk skáldsagna og ljóða. Hún skrifaði ferðabækur af fjölbreyttu tagi, æviminningar og rit um málefni Mið-Austurlanda, ekki síst um konur á svæðinu.

Jóhanna lætur eftir sig fjögur uppkomin börn, sem og barnabörn og barnabarnabörn.

Við leiðarlok þakkar Morgunblaðið Jóhönnu mikil og drjúg störf fyrir blaðið og sendir fjölskyldu hennar innilegar samúðarkveðjur.

mbl.is