„Umfangsmikið og flókið verkefni“

Mývatn á fallegu kvöldi.
Mývatn á fallegu kvöldi. mbl.is/Golli

Staða fráveitumála í Skútustaðahreppi var rædd á sveitarstjórnarfundi hreppsins í gær. Þar kom fram að sveitarstjórnin fagnar því heilshugar að ríkisstjórnin hafi samþykkt beiðni umhverfisráðherra og fjármálaráðherra um að gengið yrði til samningaviðræðna við stjórn Skútustaðarhrepps um að komu ríkisins að fráveitumálum í hreppnum.

Sveitarstjórnin stóð að þremur fundum á mánudaginn sem tengjast fráveitumálum og vöktun. Fyrst var haldinn fundur með Norðurorku um mögulega aðkomu fyrirtækisins að veitum sveitarfélagsins. Þá var haldinn fundur með Ramý, Umhverfisstofnun og Heilbrigðiseftirlitinu um vöktun á Mývatni, að því er kom fram í fundargerð.

Mývatn er náttúruperla.
Mývatn er náttúruperla. mbl.is/Golli

Loks var haldinn fræðslu- og upplýsingafundur fyrir þá rekstraraðila sem Heilbrigðiseftirlitið hefur gert kröfu um gerð úrbótaáætlana í fráveitumálum sem skal skila í síðasta lagi 17. júní. Á fundinum var meðal annars kynnt skýrsla verkfræðistofunnar Eflu sem umhverfis- og auðlindaráðuneytið lét gera um fráveitumál í Mývatnssveit, flutt erindi ÍSOR tengt mögulegri niðurdælingu á frárennslisvökva og kynning á fyrirkomulagi fráveitumála í Borgarfirði.

Fulltrúi umhverfis- og auðlindaráðherra fór einnig yfir stöðu mála varðandi aðkomu ríkisins.

„Þróun ástands í lífríki Mývatns á sér ekki einhlíta skýringu. Engu að síður er hugur sveitarstjórnar allur til þess að leysa fráveitumál af kostgæfni,“ segir í fundargerðinni.

Þar segir að fram hafi komið á fundinum hversu umfangsmikið og flókið verkefni bíður úrlausnar í fráveitumálum og að kostnaður fyrir sveitarfélagið sé varlega áætlaður um 500 til 700 milljónir króna samkvæmt skýrslu Eflu.

„Lykilatriði er að ríkið komi að fjármögnun eins og því ber samkvæmt verndarlögunum um Mývatn og Laxá.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert