Tvö ár fyrir nauðgun á Þjóðhátíð

Frá Þjóðhátíðinni í Eyjum.
Frá Þjóðhátíðinni í Eyjum. mbl.is

Ungur piltur var í lok apríl dæmdur í tveggja ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness fyrir nauðgun á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum árið 2015. Brotaþoli er fyrrverandi kærasta piltsins, en af dómnum má ráða að hún hafi verið undir lögaldri.

Var pilturinn jafnframt dæmdur til að greiða stúlkunni 1,5 milljónir í miskabætur. Ungur aldur hans var metinn honum til refsilækkunar. Vísir fjallaði fyrst um málið í dag.

Varð „ógeðslega agressívur“

Í framburði stúlkunnar fyrir dómi kemur fram að hún hafi mælt sér mót við fyrrverandi kærasta sinn hjá matartjaldinu í Herjólfsdal. Hún hafði hætt með honum um mánuði áður eftir sjö mánaða samband. Þau hafi farið saman inn í tjald hans til þess að sofa saman. Þau hafi byrjað að kyssast og hún væri ekki viss um hvort hún vildi þetta en hefði ekkert sagt við hann.

Samkvæmt framburði stúlkunnar hafi pilturinn skyndilega orðið „ógeðslega agressívur“. Hafi hann beitt hana ofbeldi og nauðung við samfarirnar, slegið hana ítrekað í andlitið, sett fingur í endaþarm hennar og ekki látið strax af háttseminni þó að hún hafi beðið hann um það og reynt að færa höndina á honum til. Þá hafi hann tekið utan um háls hennar og þrengt að, klipið hana fast í brjóstin, bitið hana í vörina og haldið áfram samförum meðan á framangreindu stóð.

Að því er fram kemur í dómnum hlaut stúlkan af þessu sprungu við endaþarmsop, mar hægra megin á hálsi, bólgu og mar á neðri vör, mar á báðum brjóstum, mar á vinstri rasskinn, hægra læri og fótleggjum og húðrispur aftan á hálsi og efst á baki.

Taldi um hefðbundið kynlíf þeirra að ræða

Pilturinn neitaði sök og krafðist þess að málinu yrði vísað frá dómi en til vara að hann yrði sýknaður af öllum kröfum. Til þrautavara krafðist hann að yrði hann sakfelldur yrðu honum ákveðin vægustu viðurlög sem lög heimila. Í framburði hans kom fram að hann teldi um hefðbundið kynlíf þeirra að ræða.

Þá gerði pilturinn athugasemdir við rannsókn málsins og sagði að öll rannsóknin virðist hafa gengið út á að sýna fram á sekt hans. Dómurinn taldi hvorki annmarka vera á rannsókn málsins né ákæru sem leitt gætu sjálfkrafa til frávísunar.

Kallaði stúlkuna hóru og druslu

Taldi dómurinn að nokkurt misræmi væri í framburði piltsins hjá lögreglu og fyrir dómi. Framburður hans um atvik og fullyrðing hans um að kynlíf þeirra hafi verið í samræmi við kynlíf sem þau hafi áður stundað, fengi ekki stoð í gögnum málsins né framburði vitna. Segir dómurinn að þvert á móti hafi hann sjálfur lýst því að kynlíf þeirra í umrætt sinn hafi verið öðruvísi en áður og ofbeldisfullt. Þá hafi hann viðurkennt að hafa kallað stúlkuna hóru og druslu, slegið hana fastar en hann hafi ætlað sér og verið harðhentur. Þá hafi hann viðurkennt hjá lögreglu að hafa ekki hætt strax þegar stúlkan bað hann að hætta að setja fingur í endaþarm hennar.

Hafi hann dregið úr framburði sínum fyrir dómi þess efnis að hann hefði slegið stúlkuna of fast. Þá sagði hann fyrir dómi að hann teldi ekki lengur að hún hefði farið grátandi út úr tjaldinu vegna þess heldur aðeins vegna þess að hann hefði kallað hana illum nöfnum. Sagði hann fyrir dómi að orðbragðið hjá honum hafi verið það eina sem hefði gengið of langt hjá honum.

Baðst afsökunar á að hafa farið með hana „eins og hlut“

Segir í dómnum að áverkar stúlkunnar styðji eindregið frásögn hennar um atvik en framburður piltsins fáist „engan veginn staðist“. Fyrir liggi SMS-skilaboð þar sem pilturinn biðji stúlkuna fyrirgefningar. Þar biður hann hana afsökunar eftir að hann „fór með þig eins og hlut áðan“ eins og hann orðar það.

Samræmi hafi verið í framburði stúlkunnar hjá lögreglu og fyrir dómi. Auk þess studdu áverkar frásögn hennar og fjölmörg vitni sem hittu hana eða ræddu við hana umrædda nótt lýstu því að hún hafi verið í mikilli geðshræringu. Þá hafi orðið miklar breytingar á stúlkunni í kjölfar atviksins og flosnaði hún til að mynda upp úr skóla.

Var pilturinn því sakfelldur fyrir nauðgun af meiri hluta dómsins en einn dómaranna taldi að sýkna ætti piltinn af nauðgun. Taldi hann að líta bæri til upplýsinga um hvernig kynferðislegu sambandi þeirra var háttað og að pilturinn hafi haft réttmæta ástæðu til að ætla að stúlkan hafi verið samþykk samförum við hann.

mbl.is