Skrítið augnablik að verða dúx

Ragnheiður Silja með stúdentshúfuna sína.
Ragnheiður Silja með stúdentshúfuna sína. Ljósmynd/Aðsend

Ragnheiður Silja Kristjánsdóttir varð á dögunum dúx í Menntaskólanum í Hamrahlíð með 9,64 í einkunn og útskrifaðist hún af opinni braut með áherslu á stærðfræði og þýsku.

Aðspurð segist hún ekki hafa reiknað með því að verða dúx en hún hafi aftur á móti vitað að hún næði ágætiseinkunn.

„Þetta var mjög skrítið augnablik. Ég var rosalega fegin að vera sitjandi þegar ég heyrði þetta því annars hefði ég örugglega dottið niður,“ segir Ragnheiður Silja, sem var einn 152 nemenda sem brautskráðust.

Auk þess að stunda námið af krafti spilar hún handbolta með meistaraflokki Víkings. Þar fyrir utan spilar hún bæði á fiðlu og gítar og hefur verið á kafi í félagslífinu í skólanum.

Hún segist þó hafa þurft að hætta í fiðlunáminu vegna tímaskorts. „Það var aðeins of mikið að vera í þessu öllu.“

Hvað framtíðina varðar segir Ragnheiður Silja hún muni spila handbolta næsta vetur. Einnig ætlar hún í inntökupróf fyrir nám í sjúkraþjálfun. Hún ætlar að ákveða sig í sumar hvort hún fer í háskóla eða út á vinnumarkaðinn. „Ég verð alla vega heima. Ég ætla ekki út strax, þótt mig langi til að gera það á einhverjum tímapunkti.“

Dúxinn Ragnheiður Silja við brautskráninguna úr MH.
Dúxinn Ragnheiður Silja við brautskráninguna úr MH. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert