„Manni bara líður illa“

Ákvörðun Bandaríkjaforseta um að segja skilið við Parísarsamkomulagið hefur verið …
Ákvörðun Bandaríkjaforseta um að segja skilið við Parísarsamkomulagið hefur verið mótmælt víða um heim. Hér sést einn mótmælandi fyrir utan Hvíta húsið í Washington. AFP

Manni líður bara illa,“ segir Sigrún Magnúsdóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra, sem leiddi samninganefnd Íslands í París árið 2015 þegar 155 ríki sömdu um að vinda ofan af loftslagsbreytingum, í kjölfar yfirlýsingar Bandaríkjaforseta um að samkomulagið verði ekki virt.

Sigrún segir að andrúmsloftið í París hafi verið einstakt, vinnan hafi farið fram allan sólarhringinn og að íslenska sendinefndin hafi þurft að hafa vaktaskipti svo hægt hafi verið að vinna á nóttunni. „Við höfðum á tilfinningunni að við værum að breyta heiminum, maður fann fyrir einhverju alveg sérstöku í þessu ferli.“

Bandarísku sendinefndina segir hún hafa verið í forystu hlutverki og nefnir sér í lagi þátt Johns Kerrys þáverandi utanríkisráðherra: „Það var mikill styrkur í hans vinnu og maður dáðist að því hvernig hann kom að málum og hélt utan um starfið sem þarna var unnið.“  

Sigrún Magnúsdóttir fyrrverandi umhverfis- og auðlindaráðherra var í París þegar …
Sigrún Magnúsdóttir fyrrverandi umhverfis- og auðlindaráðherra var í París þegar samkomulagið fræga var undirritað. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Finnst þér eins og allt þetta starf sé til einskis nú þegar Donald Trump hefur líst því yfir að Bandaríkin muni ekki virða samkomulagið?

„Nei, ég trúi því ekki. Ég trúi á hið góða í fólki og í Bandaríkjunum er svo mikið af hæfu fólki sem er ekki á sama máli og Trump. Ég hafði alltaf eygt von um að svona færi ekki en þetta kom þó ekkert sérstaklega á óvart þar sem hann hafði gefið í skyn að hann myndi ekki virða samkomulagið. Hann ætlar að treysta á kol og reyna að skapa atvinnu þannig sem er náttúrulega skrýtin framtíðarsýn þar sem staðan er sú að það eru engar auðlindir óþrjótandi. Manni bara líður illa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert