Trump veit að loftslagið er að breytast

Nikki Haley.
Nikki Haley. AFP

Donald Trump trúir því að loftslagið sé að breytast og að fólk beri einhverja ábyrgð á því. Þetta er meðal þess sem Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, sagði í viðtali við CNN.

Þrátt fyrir háværar gagnrýnisraddir í kjölfar þess að Trump dró Bandaríkin úr Parísarsamkomulaginu neitaði talsmaður Hvíta hússins að svara því hvort forsetinn tryði því að loftslagið væri að breytast.

Trump hélt því statt og stöðugt fram í kosningabaráttunni fyrir forsetakosningarnar síðasta haust að loftslagsreytingar væru blekking.

„Trump trúir þvi að loftslagið sé að breytast og hann trúir því að mengunarvaldar séu hluti af jöfnunni,“ sagði Haley í viðtalinu sem verður sýnt í heild sinni á morgun.

„Hann veit að þetta er að breytast og að Bandaríkin verða að sýna ábyrgð. Við ætlum að gera það.“

Hún sagði að alþjóðlegir sáttmálar, eins og Parísarsáttmálin sem öll lönd sem eru aðilar að Sameinuðu þjóðunum nema Nicaragua og Sýrland skrifuðu undir, væru of þungbærir og kæmu illa við bandarísk fyrirtæki.

mbl.is