Íbúar stöðvuðu framkvæmdir aftur

Íbúum tókst fyrst að stöðva framkvæmdirnar þann 14. júní.
Íbúum tókst fyrst að stöðva framkvæmdirnar þann 14. júní. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íbúar í Rauðagerði komu í gær aftur í veg fyrir framkvæmdir á Miklu­braut við Rauðagerði þar sem til stendur m.a. að gera forgangsakrein fyrir strætó, hljóðmön og hjólastíga. Um miðjan þennan mánuð tókst íbúum einnig að stöðva framkvæmdirnar með því að leggja bílum sínum fyrir vinnusvæðið en í gær, þegar til stóð að framkvæmdir hæfust að nýju, kölluðu íbúar eftir aðstoð lögreglu til að stöðva framkvæmdirnar.

„Reykjavíkurborg hefur nú lýst yfir áhuga á að vinna með íbúum. Íbúar hafa áhuga á að ljúka málinu í sátt við Reykjavíkurborg, hingað til hafa þessar viðræður verið einhliða og vilji til samstarfs ekki verið til staðar,“ segir Björg Kristín Sigþórsdóttir, íbúi í hverfinu.

Nú kveði aftur á móti við annan tón sem íbúar fagna að sögn Bjargar. „Nú bíðum við íbúar full eftirvæntingar eftir því að ljúka þessu máli á farsælan hátt með Reykjavíkurborg.“

Íbúar höfðu ítrekað vakið athygli á misbrestum sem þeir telja vera á málinu og sendu meðal annars bréf til allra aðal- og varamanna í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkur. Í bréfinu var fulltrúum m.a. boðið til fundar til að ræða við íbúa um málið. Enginn kjörinna fulltrúa mætti þó á fundinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert