Skapandi leikvöllur á safni

Leikvöllur. Frá vinstri eru þær Guðrún Björnsdóttir, Kristín Maríella Friðjónsdóttir, …
Leikvöllur. Frá vinstri eru þær Guðrún Björnsdóttir, Kristín Maríella Friðjónsdóttir, Ólöf Atladóttir og Magnea Guðrún Gunnarsdóttir, en þær eru í hópi 15 foreldra sem standa að „pop-up“ leikvelli í Hafnarborg á sunnudaginn. mbl.is/Golli

„Það rigndi og foreldrarnir urðu frekar ósáttir, en börnin glöddust og hlupu upp í brekkuna með pappaspjöld og fóru að renna sér niður í rigningunni. Af því hlaust hin besta skemmtun, fyrir börnin sjálf og líka fyrir foreldrana að sjá. Svona geta litlu börnin okkar verið miklir verkfræðingar þegar þau fá að leika sér óáreitt.“

Þetta segir Kristín Maríella Friðjónsdóttir, en hún er ein af 15 foreldrum sem standa saman að „pop-up“ ævintýraleikvelli í samvinnu við Listasafnið Hafnarborg í Hafnarfirði.

Kristín lýsti þarna ferð með dóttur sinni, sem er þriggja og hálfs árs, á pop-up ævintýraleikvöll þar sem hún býr ásamt fjölskyldunni úti í Singapúr. „Ástæðan fyrir heitinu pop-up ævintýraleikvöllur er að hann er ekki settur upp varanlega, heldur „poppar bara upp“ sem skipulagður viðburður,“ segir Kristín, sem vonast til að geta sett upp slíka leikvelli á fleiri stöðum. Pop-up leikvöllurinn á sunnudaginn verður utandyra fyrir börn eldri en tveggja ára en fyrir yngstu börnin verður hann innandyra í listasafninu.

Í anda RIE-uppeldisstefnu

„Hugmyndin er sú að setja upp leiksvæði fyrir börn, þar sem þau fá að leika sér örugg en í skapandi umhverfi. Ekki með leikföng, heldur með opinn efnivið,“ heldur Kristín áfram. „Börnin fá í hendurnar t.d. pappa, reipi, límband, ílát, efnisbúta, vatnsker, potta, pönnur, sigti, gömul lyklaborð o.s.frv. Svo eru þau látin leika sér að þessu sjálf án afskipta fullorðinna sem eru hvattir til að halda sig til hlés á meðan,“ segir Kristín. Pop-up ævintýraleikvöllurinn verður settur upp í anda RIE-uppeldisstefnunnar, sem leggur áherslu á virðingu, meðvitund, hæfileika og frelsi barna til að uppgötva sjálf.

Ímyndunarleikir barna

„Börn eru litlir snillingar og leika sér sjálf í ímyndunarleikjum með efnivið úr umhverfinu ef þau fá að vera í friði,“ segir Kristín. Einnig geti verið mikilvægt að leyfa börnunum að eiga samskipti og jafnvel lenda í ágreiningi til að leysa sín á milli. „Það getur verið þroskaþjófnaður að stíga alltaf inn í samskipti barnanna, þó auðvitað þurfi samt alltaf að tryggja öryggi þeirra,“ segir Kristín. Pop-up ævintýraleikvöllurinn verður á næsta sunnudag í Listasafninu Hafnarborg við Strandgötu í Hafnarfirði á milli kl. 14-17 og eru foreldrar og börn velkomin.

Virðing og meðvitund í uppeldi

RIE, borið fram „ræ“, er skammstöfun fyrir enska heitið Resources for Infant Educating, betur þekkt sem Respectful Parenting. Það má þýða sem „Virðing og meðvitund í uppeldi“. Upphafsmaður stefnunnar er Magda Gerber, árið 1978, ásamt barnalækninum Emmi Pikler. Grundvallarreglur uppeldisstefnunnar eru virðing gagnvart barninu ásamt því að treysta því sjálfu fyrir að vera frumkvöðull og könnuður og því að læra sjálft. Uppalendur eru hvattir til að búa barninu umhverfi sem er öruggt en áhugavert og tilfinningalega nærandi, gefa því tíma fyrir ótruflaðan leik og frelsi til að umgangast önnur börn í friði, leyfa þátttöku barnsins í eigin umönnun, að gefa sér tíma til að tengjast og skynja þarfir barnsins og að lokum að vera samkvæmur sjálfum sér í að aga og setja barninu mörk.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka