Samkaup hafa ákveðið að bjóða viðskiptavinum sínum að koma með plastpoka í allar verslanir fyrirtækisins og skipta þeim út fyrir fjölnotapoka. Átakið fer af stað í dag. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.
„Við höfum tekið upp 50.000 fjölnota poka og komið upp sérstökum mótttökustöðvum í verslunum okkar. Með því viljum hvetja fólk til að koma með plastpoka til okkar. Fyrir hverja þrjá plastpoka sem fólk skilar í verslanir okkar, fær viðkomandi einn fjölnotapoka. Við sjáum svo að sjálfsögðu til þess að plastpokarnir fari á réttan stað, beint í endurvinnslu. Með þessu viljum leggja okkar af mörkum við að draga almennt úr notkun plastpoka,“ segir Gunnar Egill Sigurðsson,framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa, í fréttatilkynningu.
Fjölnotapokarnir munu fást í skiptum fyrir plastpoka meðan birgðir endast. „Í framhaldinu munum við svo hafa fjölnotapokana okkar til sölu og ágóði þeirra rennur í samfélagssjóð Samkaupa sem árlega er nýttur til að styðja við góð málefni,“ segir enn fremur í tilkynningu.
Gunnar Egill segir að vissulega hafi átak Pokasjóðs sem ýtt var úr vör sl. vor og snerist um að leggja sjálfan sig niður hafa haft hvetjandi áhrif á framkvæmdina. En hugmyndin að þessu einstaka framtaki hafi raunverulega kviknað í kjölfar strandhreinsiátaks sem stærsta verslunarkeðja Samkaupa, Nettó, hefur unnið í samstarfi við Bláa herinn og Samtök Sveitarfélaga á Suðurnesjum í sumar en þar kom ýmislegt í ljós.
„Strendurnar á Reykjanesi voru gengnar og rusl tekið upp úr fjörunni. Okkur ofbauð hreinlega magnið. Bara í sumar söfnuðust yfir fimm tonn. Við viljum með þessum aðgerðum axla ábyrgð á vandamálinu sem útbreiðsla plastpoka raunverulega er. Það getur til að mynda tekið á bilinu 100-500 ár fyrir hefðbundna plastpoka að brotna niður í náttúrunni. Við erum í góðri aðstöðu til þess að reyna að breyta þessu með viðskiptavinum okkar og þess vegna förum við af stað í þetta verkefni núna,“ segir Gunnar Egill í tilkynningu.
Hann segir fjölnotapokaátakið lið í umhverfisverndarstefnu fyrirtækisins, en fyrirtækið hefur undanfarin ár lagt mikið upp úr því að láta til sín taka á þessu sviði. Eins og talsvert hefur verið fjallað um áður þá drógu Samkaup úr sorpi frá verslunum um 100 tonn í fyrra og eru nú þegar komin langleiðina með sama markmið í ár.
„Til að styðja við þetta höfum við líka verið með verkefnið Minni sóun sem gengur út á að fá viðskiptavini í lið með okkur og bjóðum upp á stigmagnandi afslætti eftir því sem síðasti söludagur nálgast. Þær vörur hafa fengið gríðarlega góð viðbrögð og í fyrra veittum við 125 milljónir króna í afslátt og nú þegar höfum við veitt 105 milljónir króna í afslátt það sem af er ári.“