Vígahnöttur vekur athygli á samfélagsmiðlum

Vígahnötturinn sást víða um land.
Vígahnötturinn sást víða um land. Ljósmynd/Twitter

Ljósagangur á himni yfir Íslandi í gærkvöldi virðist hafa vakið athygli margra og hafa notendur samfélagsmiðla verið duglegir að deila myndum og myndböndum af fyrirbærinu með vangaveltum um hvað væri þar á ferðinni.

„Voru einhverjir sem sáu þennan loftstein rétt áðan yfir Reykjavík'“ spurði einn. „Mitt í norðurljósahafi sáum við loftstein hrapa rétt hjá okkur af því er virtist. Eins og stór raketta, fór hratt yfir Esjuna í norðurátt,“ sagði annar og sá þriðji, erlendur ferðamaður talar um að norðurljósasýningin sem hann var að fylgjast með á himni hafi beðið lægri hlut fyrir loftsteini. „Það var svo kúl“, bætti hann við.

Á Facebook-síðu Stjörnufræðivefjarins segir að þarna sé vígahnöttur á ferð og að lýsingar hafi borist af honum frá Eyjafirði, höfuðborgarsvæðinu og Suðurlandi. Eru þeir sem mynduðu hnöttinn hvattir til að setja sig í samband við Stjörnufræðivefinn.

Deilir vefurinn myndskeiði af vígahnettinum sem Auður Óskarsdóttir tók við Suðurhóla í Breiðholti skömmu fyrir ellefu í gærkvöldi.

„Eins og sjá má fer steinninn tiltölulega hægt yfir og hefur því sennilega komið inn í lofthjúpinn á innan við 20 km hraða á sekúndum, á að giska, sem er nálægt lægri mörkum á hraða loftsteina,“ segir í færslunni.

„Steinninn hefur líklega verið úr bergi því eins og sjá má sundrast hann áður en hann hverfur í 20-30 km hæð. Af birtunni að dæma var steinninn lítill, mun minni en fótbolti og líklega minni en tennisbolti en það er gróf ágiskun.

Vígahnötturinn, sem er óvenju skært stjörnuhrap, er þó að sögn Stjörnufræðivefjarins langt í frá sá skærasti sem sést hefur frá Íslandi. Hann sé þó líklega „sá sem flestir hafa orðið vitni að. Það er frábært að hugsa til þess hversu margir eru farnir að gjóa augunum til himins.“

mbl.is