Von á dansandi norðurljósum

Útlit er fyrir litrík og dansandi kvik norðurljós næstu daga.
Útlit er fyrir litrík og dansandi kvik norðurljós næstu daga. mbl.is/Golli

„Af því gefnu að það sjáist í heiðan himin þá ætti fólk að eiga býsna góða möguleika á því að sjá mjög tignarleg og tilkomumikil norðurljós í vikunni,“ segir Sævar Helgi Bragason, stjörnufræðingur og ritstjóri Stjörnufræðivefjarins, í samtali við mbl.is.

Ástæðan fyrir mikilli norðurljósavirkni er væn sólvindasending frá sólinni. „Sólvindurinn mun valda lítils háttar segulstormum fram á laugardag sem þýðir að við munum fá tiltölulega litrík og dansandi kvik norðurljós,“ segir Sævar Helgi.

Á Stjörnufræðivefnum má fylgjast með norðurljósaspá sjö daga fram í tímann. Sævar Helgi segir að fólk eigi þó ekki að taka of mikið mark á svokölluðu Kp-gildi sem segir til um styrk segultruflana af völdum sólvinds, frá 0-9. „Kp-gildi hjá okkur getur verið hærra eða lægra en spáð er.“

Spáin gerir ráð fyrir að norðurljósavirkni verði í hámarki um ellefuleytið næstu kvöld, en Sævar Helgi segir að besta ráð fyrir fólk á norðurljósavakt sé að sýna þolinmæði. „Þessi vika lofar mjög góðu þannig að fólk ætti endilega að hafa augun á himninum ef það vill sjá falleg norðurljós, en muna að gefa sér tíma.“

Hér má fylgjast með norðurljósaspá Stjörnufræðivefjarins.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert