Nýnasistavefsíðu líklega lokað á föstudag

AFP

Íslenska lénaskráningin ISNIC átti sinn fyrsta fund með ríkislögreglustjóra í dag og samkvæmt upplýsingum frá Jens Pétri Jensen, framkvæmdastjóra ISNIC, var fundurinn mjög gagnlegur. Var fundurinn haldinn með það að leiðarljósi að fá ráðgjöf hjá Ríkislögreglustjóra meðal annars vegna vefsíðunnar Daily Stormer sem er með lén sitt skráð hér á landi.

Í skriflegu svari Jens við fyrirspurn mbl.is segir að vegna þess að vefurinn umræddi er ekki hýstur á Íslandi þá geti ríkislögreglustjóri ekki fyrirskipað að vefurinn né lénið skuli tekið niður. Hins vegar tekur hann fram að ef tilefni þykir til þá geti ISNIC krafið rétthafa léna um gögn sem sanna tilvist viðkomandi og heimilisfang og séu gögnin afhend lögreglu gegn beiðni, þó aldrei hafi á það reynt.

ISNIC hefur farið fram á ítarlegar upplýsingar sem sanna tilvist og heimilisfang rétthafa léns Daily Stormer. Fullnægjandi gögn hafa hins vegar enn ekki borist og berist þau ekki fyrir kl. 16 á föstudag verður léninu lokað á grundvelli 4. liðar 22. greinar skráningarreglnanna sem segja: „Reynist upplýsingar um rétthafa léns augljóslega rangar þrátt fyrir ítrekaðar tilkynningar þar að lútandi til tengiliðar rétthafa, getur ISNIC lokað léni viðkomandi.“ Skráningarreglur um lokun og brottfall léna má lesa nánar hér.

Persónulegar upplýsingar notaðar til fjárkúgunar

Í svari sínu segir Jens einnig frá örðu máli sem rætt var á fundinum og ISNIC lítur mjög alvarlegum augum. Um er að ræða persónulegar upplýsingar um einstaklinga, sem stolið var af Instagram, sem notaðar eru til að fjárkúga viðkomandi einstaklinga á vef sem hefur íslenskt lén. Viðkomandi vefsíðu verður einnig lokað kl. 16 á föstudaginn kemur hafi viðkomandi rétthafi ekki gert fulla grein fyrir sér fyrir þann tíma.

„ISNIC harmar að óprúttnir aðilar og glæpamenn virðast hafa skráð .is-lén beinlínis í þeim tilgangi að tengja þau ólöglegu athæfi á veraldarvefnum (www.) en ítrekar að í skráningu léns getur aldrei falist glæpur og að öll lén, hverju nafni sem þau nefnast, eru saklaus fórnarlömb í þessu samhengi, rétt eins og t.d. símanúmer eða heimilisfang glæpamanna eru líka saklaus,“ segir í svari Jens.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert