Fulltrúar GRECO gera úttekt á Íslandi

Markmið úttektar GRECO er að koma í veg fyrir spillingu …
Markmið úttektar GRECO er að koma í veg fyrir spillingu með því að styrkja regluverk, stefnumótun og eftirfylgni. mbl.is/Ófeigur

Fulltrúar GRECO, samtaka ríkja innan Evrópuráðsins gegn spillingu, voru hér á landi í síðustu viku og hittu fulltrúa íslenskra stjórnvalda, stofnana, samtaka, fjölmiðla og sérfræðinga úr ýmsum áttum.

Í tilkynningu frá Stjórnarráði Íslands kemur fram að GRECO beina nú sjónum sínum að því hvernig aðildarríkjum gengur að ýta undir heilindi og efla gagnsæi meðal þeirra sem fara með framkvæmdarvald í æðstu stöðum stjórnkerfisins og þeirra sem starfa innan löggæslustofnana. Markmiðið er að koma í veg fyrir spillingu með því að styrkja regluverk, stefnumótun og eftirfylgni.

Úttektarferlinu var hleypt af stokkunum um síðustu áramót og liður í því er vettvangsheimsókn sendinefndar GRECO til aðildarríkjanna, líkt og í fyrri úttektum á vegum samtakanna, en þetta er sú fimmta í röðinni.

Í kjölfar heimsóknarinnar vinna fulltrúar GRECO matsskýrslu um stöðu mála hér á landi líkt og venjan er. Gert er ráð fyrir að skýrslan verði tekin fyrir á fundi GRECO í Strassborg í mars á næsta ári.

Þátttöku Íslands í GRECO er ætlað að styrkja innviði íslenska stjórnkerfisins, þar á meðal með því að sporna gegn hagsmunaárekstrum, minnka hættu á spillingu og mútum og ýta undir heilindi embættis- og stjórnmálamanna í vinnubrögðum. Í tilkynningu stjórnarráðsins kemur jafnframt fram að íslensk stjórnvöld eru nú komin vel á veg að bregðast við tilmælum GRECO sem fram komu í 4. úttektinni frá 2013. Hún snýr að alþingismönnum, ákæruvaldi og dómurum en athyglinni er einkum beint að setningu siðareglna, hagsmunaskráningu og öðrum aðgerðum sem miða að meira gagnsæi.

GRECO eru samtök ríkja innan Evrópuráðsins gegn spillingu
GRECO eru samtök ríkja innan Evrópuráðsins gegn spillingu www.coe.int
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert