Mikið brottfall vegna vinnu með skóla

Leikskólabörn í menningarferð. Mikil meirihluti þeirra sem eru í leikskólakennara …
Leikskólabörn í menningarferð. Mikil meirihluti þeirra sem eru í leikskólakennara námi vinna á leikskóla samhliða náminu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Innan við 30 hafa útskrifast með leikskólakennararéttindi frá Menntasviði Háskóla Íslands á undanförnum þremur árum. Þannig útskrifuðust átta leikskólakennarar árið 2015, 11 útskrifuðust árið 2016 og 10 í ár.

Góðu fréttirnar eru þó þær að svo virðist sem þeir sem ljúka fimm ára náminu skili sér betur inn í skólana en þeir sem áður fóru í þriggja ára nám. Samkvæmt nýlegri könnun þeirra Önnu Kristínar Sigurðardóttur, dósents við Menntavísindasvið HÍ og Sigríðar Sigurjónsdóttur þá skiluðu þeir 19 sem útskrifuðust árin 2015 og 2016 sér allir inn á leikskólana og verið er að kanna hvernig sé með þá sem útskrifast hafa úr náminu í ár.

„Hvað þetta varðar þá er 5 ára námið að virka,“ segir Anna Kristín í samtali við mbl.is. „Bæði þeir sem ljúka meistaranáminu eftir fimm ára nám í leikskólafræðum og svo þeir sem ljúka náminu eftir 2 ára meistaranám eru að skila sér mjög vel inn í leikskólana. Þangað eru jafnvel líka að koma nokkrir þeirra sem útskrifuðust og grunnskólakennaranáminu,“ bætir hún við.

Samkvæmt könnuninni töldu 85% þeirra sem útskrifast hafa úr náminu að flestir hlutar námsins hafi gagnast þeim vel í starfi.

Mikið brottfall vegna vinnu með skóla

Á fyrirlestri sem Anna Kristín hélt ásamt Gunnhildi Óskarsdóttur síðasta föstudag kom fram að þó að 23 hefðu innritað sig í leikskólakennaranám á meistarastigi 2013  en ekki nema átta útskrifuðust úr náminu 2014, 29 innrituðu sig í námið 2015 og útskrifuðust 11 tveimur árum síðar. Þá útskrifuðust 10 í ár þó að 36 nemendur hafi hafið meistaranám tveimur árum áður.

„Það eru margir sem taka þetta á lengri tíma, en svo er líka mikið brottfall,“ segir Anna Kristín og bætir við að þó að innritunartölur hafi vissulega farið upp á við, þá hafi lengd námstíma og brottfall líka töluverð áhrif.

Bryndís segir leikskólafræðin heilla marga, en mögulega geri einhverjir sér …
Bryndís segir leikskólafræðin heilla marga, en mögulega geri einhverjir sér ekki grein fyrir hvað þetta er mikið nám samhliða fullri vinnu. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Haraldur Freyr Gíslason, formaður Félags leikskólakennara, segist telja margar og mismunandi ástæður að baki brottfallinu. „Nú hef ég engar tölulegar upplýsingar, en maður hefur heyrt að fólk sé að taka þetta með vinnu og það er álag að vera í námi,“ segir hann. „Þetta er erfitt nám og mörgum hrýs hugur við því að gera þetta með fullri vinnu.“

Bryndís Garðarsdóttir, formaður námsleiðar í leikskólakennarafræði við HÍ, staðfestir þetta og segir mikla vinnu nemenda eina helstu ástæðuna. „Það eru ýmsar ástæður fyrir því að menn flosna úr námi, en ástæðan er fyrst og fremst sú að nemendur eru í mikilli vinnu,“ segir hún og kveður nemendur í leikskólakennarafræðum vera að jafnaði í 75% til 100% vinnu. Leikskólakennaranemar virðast því ekki nálgast námið sem vinnu með sama hætti og í mörgum öðrum háskólafögum.

„Nemendurnir eru eiginlega undantekningalaust í starfi og starfa þá á leikskóla,“ segir hún. Meðalaldur nemenda hefur þó lækkað undanfarin ár. „Við erum kannski ekki að fá marga nýstúdenta, en 23-25 ára er algengur aldur,“ segir Bryndís.

Þurfum að hlúa að nemendunum

 „Leikskólafræðin heilla marga, en það er erfitt að sameina fjölskyldu, vinnu og nám og mögulega gera einhverjir sér ekki grein fyrir hvað þetta er mikið nám. Það krefst aga að vera í fjarnámi og ég held að það sé aðalhindrunin,“ segir Bryndís og bendir á að í könnun sem gerð hafi verið hafi brottfall úr leikskólakennaranáminu farið upp í 50% eitt árið.

Þau Haraldur og Bryndís nefna að einhver sveitarfélög hafi þó verið að koma til móts við starfsmenn með því veita þeim frí á launum hluta námstímans.

Haraldur segir brottfall úr leikskólakennaranámi þó vissulega vera áhyggjuefni. „Það þarf að ná utan um þetta og við verðum að hlúa að þeim nemum sem byrja og reyna að finna leiðir til þess að þeir flosni ekki upp úr námi,“ segir hann.

Ein þeirra hugmynda sem rædd hafi verið í þessi sambandi sé að hafa eitt námsáranna sem svonefnt kandídatsár þar sem nemar væru að vinna við starfstengd verkefni á vettvangi. „Þá væri möguleiki að búa til kerfi þar sem fólk kæmi til starfa hjá sveitarfélögunum og fengi greidd laun samkvæmt kjarasamningi. Síðan væri líka möguleiki að semja við leikskólakennara um að gerast mentor viðkomandi nema og hann fengi greitt fyrir þá vinnu,“ segir Haraldur. „Þetta væru möguleg þáttaskil, því það þarf að finna leið til að laga þetta þar sem að brottfallið er klárlega of mikið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert