Íhuga að leggja fram stjórnsýslukæru

Þjórsárver.
Þjórsárver. mbl.is/Rax

Hreppsnefnd Ásahrepps íhugar að leggja fram stjórnsýslukæru á hendur umhverfisráðuneytinu vegna stækkunar friðlands í Þjórsárverum. Þetta var samþykkt samhljóða á hreppsnefndarfundi Ásahrepps í dag. 

„Hreppsnefnd Ásahrepps harmar þau vinnubrögð sem viðhöfð eru bæði af hendi umhverfisráðherra sem og Umhverfisstofnunar og mun íhuga að leggja fram stjórnsýslukæru á hendur umhverfisráðuneytinu,“ segir í umsögn um stækkun friðlands í Þjórsárverum. 

Fylgja stækkun þrátt fyrir „meingallaða“ málsmeðferð

Hreppnefndin ítrekar að ekki standi til að framkvæma eða raska umræddu svæði á nokkurn hátt enda yrði það ekki gert nema í samráði við landeiganda sem er ríkið. „Þrátt fyrir að málsmeðferð hafi verið meingölluð og erfitt að afla gagna og upplýsinga um málið þá er hreppsnefnd fylgjandi stækkun friðlandsins,“ segir jafnframt. Í þessu samhengi er bent á að óvissa ríkir í stjórnmálum þar sem óvíst er að verkefninu verði tryggt fjármagn á næstu fjárlögum. Þar af leiðandi telur hreppsnefndin „ekki heppilegt fyrir svo stórt verkefni að það sé keyrt í gegn af starfandi ráðherra án umboðs.“

Hefði þurft að gefa verkefninu tíma 

„Hreppsnefnd lítur svo á að þótt ákvörðun um friðlýsingu Þjórsárvera sé byggð á náttúruverndaráætlun sem samþykkt var á Alþingi árið 2010 hefði það verið í betra samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að viðhafa málsmeðferð á grundvelli gildandi náttúruverndarlaga og gefa málinu þann tíma sem þarf til þess að ná sem bestri sátt um friðlýsinguna.“ Þetta kemur fram í fundargerðinni. 

Í umsögninni er jafnframt bent á að takmarkaðar upplýsingar liggi fyrir um starfsemi núverandi Þjórsárvera. Þá vanti „mikið upp á að núverandi Þjórsárverum sé sýndur sá sómi sem þau eiga skilið. Lítið sem ekkert utanumhald er um Þjórsárver í núverandi mynd og nokkuð ljóst að það fyrirkomulag sem ríkir er ekki að skila sér til svæðisins, hvort sem horft er til uppbyggingar, merkinga eða vörslu,“ segir jafnframt. 

Hlutaðeig­andi sveit­ar­fé­lög­um var veitt­ur þriggja mánaða frest­ur, með bréf­um frá 3. júlí 2017, til að gera at­huga­semd­ir við friðlýs­ing­ar­skil­mála um stækkað friðland en sam­hliða því fór málið í al­mennt um­sagn­ar­ferli á vef ráðuneyt­is­ins3. október óskaði sveitarstjóri Ásahrepps formlega eftir fresti til að skila inn umsögn um tillögu að stækkun friðlands í Þjórsárverum til 11. október sama dag og hreppsnefndarfundur yrði haldinn. Svar barst samdægurs þar sem ráðuneytið taldi að ekki væru forsendur fyrir því að veita frest. Þetta kemur fram í fundargerðinni. 

Þjórsárver.
Þjórsárver. mbl.is/Brynjar Gauti
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert