Hellaferðir í uppnámi vegna fyrirsagnar

Á myndinni eru ferðamenn í hellaferð.
Á myndinni eru ferðamenn í hellaferð. Mynd / South East ehf.

„Fréttin er kannski ekki röng en framsetningin er afar dúbíus,“ segir Sigurður Guðmundsson, eigandi ferðaþjónustufyrirtækisins South East ehf. Ferðaþjónustuaðilar á Suðausturlandi eru sumir hverjir afar ósáttir við framsetningu fyrirsagnar á fréttamiðlinum Vísi, vegna fréttar í kvöldfréttum Stöðvar 2, sem segir að eldsumbrot séu hafin í Öræfajökli. Síðar um kvöldið birtist sama frétt undir fyrirsögninni Kvika komin upp undir yfirborð Öræfajökuls á Vísi.

Sigurður segir að sex manna hópur hafi hringt strax í gærkvöldi og afbókað íshellaferð því eldgos væri hafið. Annar ferðaþjónustubóndi, Laufey Guðmundsdóttir hjá Glacier Journey, segir að fyrirtækinu hafi borist fjölmargar fyrirspurnir vegna fréttarinnar.

Í fréttinni er rætt við Ólaf G. Flóvenz sem heldur því fram að kvika hafi borist djúpt úr jörðu og upp undir yfirborð í toppgíg eldfjallsins. Það orsaki bráðnunina í jöklinum og sigketilinn sem myndast hafi.

Hann útskýrir sjónarmið sitt í löngu máli á vef Íslenskra orkurannsókna. „Hversu hátt upp undir Öræfajökul kvikan hefur náð er erfitt að segja en úr því að bráðnunin er þetta hröð hlýtur að hafa skapast mikill snertiflötur milli kvikunnar og grunnvatnsins til að fá allt þetta varmaafl úr kvikuinnskotinu.“ Hann tekur hins vegar fram að um gæti verið að ræða atburð sem um garð sé genginn, eða upphafið að einhverju meira. „Um það getur enginn fullyrt og því síður hvort hugsanlegt gos yrði lítið eða mikið,“ segir hann á vefsíðunni, þar sem efnislega koma fram sömu sjónarmið og í frétt Stöðvar 2 og Vísis.

Myndu aldrei stofna fólki í hættu

„Þau sáu þessa fyrirsögn að eldsumbrot væru hafin í Öræfajökli og sögðust ekki ætla að koma því það væri hafið eldgos,“ segir Sigurður um skýringar ferðamannanna á afbókuninni. Spurður hvort óhætt sé að bjóða upp á ferðir á jökulinn þegar almannavarnir hafi lýst yfir óvissustigi vegna aukinnar virkni í Öræfajökli svarar Sigurður því til að í hellaferðunum felst að farið sé upp undir jökulinn. Fyrirtækin séu flest skipuð björgunarsveitarfólki sem sé með öflugan fjarskiptabúnað og reynslu.

„Við erum sjálf með góðan matshóp til að meta öryggi, hella, aðstæður og umhverfi. Við sendum til dæmis öllu okkar fólki skilaboð í gær og fyrradag um að það ætti ekki að koma austur vegna veðurs,“ segir hann. Sigurður ítrekar að fyrirtækið myndi aldrei stofna fólki í hættu og þyrfti mjög skamman fyrirvara til að koma sér frá jöklinum, ef eldgos væri í uppsiglingu. „Við erum mjög meðvituð um öryggi og stefnum fólki ekki hingað ef veður eða annað er í ólagi. Við höfum alltaf fyrirvara þó að rýmingartíminn í Öræfum sé stuttur. Við værum farin með það sama.“

„Fólk túlkar það þannig að eldgos sé hafið“

Hann segir að ferðaþjónustubændur á svæðinu séu afar ósáttir við framsetningu fréttarinnar, þótt fréttin sé ekki röng. Hann segist hafa reynt að útskýra fyrir fararstjóra hópsins að eldgos væri alls ekki hafið en að þær tilraunir hafi ekki borið árangur.

Í svipaðan streng tekur Laufey Guðmundsdóttir, eigandi Glazier Journey. Hún segir að fyrirtækinu hafi borist margar fyrirspurnir vegna fréttarinnar. Hún hafi fengið sjö slíkar í eigið netfang en það sé sennilega ekki allt. „Fólk túlkar það þannig að eldgos sé hafið. Það les ekki alla greinina og þekkir ekki muninn á eldgosi og kvikuinnskoti. Fréttin er fín en fyrirsögnin er vonlaus,“ segir hún. Einhverra hluta vegna gangi illa að koma í fólki um skilning um að eldgos sé ekki hafið.

„Við höfum við nóg að berjast þó svo við séum ekki að eiga við fíflalegan fréttaflutning líka. Við þurfum ekki á þessu að halda. Rokið sér okkur alveg fyrir frídögum hérna á Suðausturlandi,“ segir hún.

Sigurður segir að öryggi ferðamanna sé ávallt í fyrirrúmi.
Sigurður segir að öryggi ferðamanna sé ávallt í fyrirrúmi. Mynd / South East ehf.
mbl.is