Örfáu dagarnir orðnir ansi margir

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata. mbl.is/​Hari

„Mér finnst þetta ganga allt of hægt hjá þeim, og finnst að þau hefðu átt að vera löngu búin að þessu. Þau eru alltaf að tala um örfáa daga í viðbót, en þeir eru orðnir ansi margir örfáu dagarnir,“ sagði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, eft­ir fund allra formanna flokka á Alþingi nú síðdeg­is. 

„Ríkisstjórnin þarf einhvern tíma til að koma sínum málum saman svo það tefst væntanlega talsvert að setja þing en okkur finnst eðlilegra að bíða með það til þess að ríkisstjórnin geti lagt fram sitt eigið fjárlagafrumvarp,“ segir hún. 

Vilja að fyrirhuguð stjórn leggi fram nýtt fjárlagafrumvarp

Að sögn Þórhildar voru á fundinum ræddir möguleikar um að leggja annaðhvort fram óbreytt fjárlagafrumvarp og gera það þá fyrr, þar sem það gæti tekið breytingum, eða að leggja fram nýtt frumvarp. Segist henni ekki hugnast fyrri leiðin. 

„Þá er til dæmis fyrsta umræða til einskis, þá er hún mjög lituð af því að þetta verður ekki frumvarpið eftir meðferð nefndarinnar. Ég sé ekki alveg tilganginn í því að taka fyrstu umræðuna í blindni og svo verði 450 breytingatillögur inni í nefnd,“ segir hún. „Þá er betra að þau vinni þetta sjálf og standi að sínu frumvarpi sem við getum rætt. Við erum þá sammála um að við þurfum að hafa hraðar hendur, en okkur líst betur á þennan kost.“

Segir hún þingsetningardaga hafa verið rædda á fundinum og líkleg niðurstaða þótt hafa verið um miðjan desember. „Þá eru ekki margir dagar eftir en það er bara svona.“

Loks segir hún biðina vera orðna ansi langa og ferlið hafa átt að ganga hraðar. „En við sjáum hvað kemur út úr þessu, við vitum auðvitað ekki hversu lengi þau vinna í fjármálaráðuneytinu. Þetta hlýtur að koma í ljós,“ segir hún. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert