365 miðlar skipta um eigendur á morgun

Höfuðstöðvar 365 í Skaptahlíð.
Höfuðstöðvar 365 í Skaptahlíð. mbl.is/Ómar Óskarsson

Kaup Fjarskipta hf. á einingum 365 miðla hf., fyrir utan útgáfu Fréttablaðsins og tímaritsins Glamour, ganga í gegn á morgun. Einingar 365 miðla hf. sem um ræðir eru meðal annars Stöð 2, Stöð 2 Sport, Bylgjuna, FM957, Xið, vísir.is, fréttadeild og auglýsinga- og áskriftasölu. Þessar einingar, starfsmenn þeirra og stjórnendur munu færast undir nýtt svið sem ber nafnið Miðlar innan Fjarskipta. 

Velta  sameinaðs félags mun nema um 22 milljörðum króna og skila um 5 milljörðum króna í EBITDA hagnað þegar samlegðaráhrif eru að fullu komin fram eftir 12-18 mánuði. Með viðskiptunum verður til leiðandi fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtæki á Íslandi, sem mun veita yfir 500 manns atvinnu. 

Björn Víglundsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri hins nýja sviðs og mun leiða samþættingu þess við aðrar einingar Fjarskipta og vöruþróun. „Það er skýrt markmið samrunans að styðja öfluga innlenda dagskrárgerð og faglega óháða fréttastofu sem lykilþátt í framtíðarstefnu félagsins. Viðskiptavinir munu finna litlar sem engar breytingar fyrst um sinn.“ Þetta kemur fram í tilkynningu. 

Björn Víglundsson er framkvæmdastjóri nýja sviðsins.
Björn Víglundsson er framkvæmdastjóri nýja sviðsins. Ljósmynd/Aðsend

„Það er mjög ánægjulegt að taka síðasta skrefið í kaupum okkar á stórum hluta fjölmiðla- og fjarskiptastarfsemi 365. Á meðan á löngu kaupferli hefur staðið hef ég gert mér enn betur grein fyrir mikilvægi þessarar starfsemi fyrir íslenskt samfélag [...] Þrátt fyrir aukið erlent framboð tel ég að um alla framtíð verði þörf og eftirspurn eftir öflugum innlendum miðlum sem gera efni sem tengist samfélagi okkar og menningu.“ Þetta er haft eftir Stefáni Sigurðssyni forstjóra Vodafone.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert