Lengra fæðingarorlof og hærri greiðslur

Stjórnarsáttmálinn var kynntur í morgun.
Stjórnarsáttmálinn var kynntur í morgun. mbl.is/Eggert

Til stendur að lengja fæðingarorlof og hækka orlofsgreiðslur í fæðingarorlofi á þessu kjörtímabili, að fram kemur í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar sem kynntur var í morgun. Er það liður í að auka jafnrétti kynjanna og brúa bil á milli fæðingarorlofs og leikskóla, sem Alþingi hefur samþykkt að gera. Í velferðarmálakafla sáttmálans segir að aðgerðirnar séu mikilvægt framlag ríkisins í þessari brúarsmíð.

Þá ætlar ríkisstjórnin að hækka frítekjumark atvinnutekna aldraðra í hundrað þúsund krónur strax um næstu áramót. Gjaldskrá vegna tannlækninga aldraðra og örorkulífeyrisþega verður einnig uppfærð til að lækka kostnað þessara hópa.

Ríkisstjórnin mun efna til samráðs við forsvarsmenn örorkulífeyrisþega um breytingar á bótakerfinu með það að markmiði að skapa sátt um að einfalda kerfið, tryggja framfærslu örorkulífeyrisþega og efla þá til samfélagsþátttöku. Í því samráði munu stjórnvöld fyrst og fremst ræða við Öryrkjabandalagið og Þroskahjálp og stefna að því að ljúka þeirri vinnu sem fyrst.

Fjárhagsstaða örorkulífeyrisþega með uppkomin börn í námi verður einnig styrkt með því að viðhalda óbreyttri framfærslu foreldris á hefðbundnum námstíma eftir 18 ára aldur meðan á námi stendur.

Fram kemur að ljúka þurfi lögfestingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA) og breytingu á lögum um málefni fatlaðs fólks. Þá þurfi að skýra í lögum réttinn til táknmálstúlkunar í daglegu lífi. Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verður innleiddur.

Íslendingar taki á móti fleiri flóttamönnum

Í velferðarmálakaflanum er einnig kveðið á um málefni flóttafólks. Þar segir að Ísland muni leggja sitt af mörkum til lausnar á flóttamannavandanum og taka á móti fleiri flóttamönnum. Mannúðarsjónarmið og alþjóðlegar skuldbindingar verði lögð til grundvallar og áhersla á góða og skilvirka meðhöndlun umsókna um alþjóðlega vernd. Auk þess verði tryggð samfelld þjónusta og aðstoð við þá sem fá slíka vernd. Þverpólitískri þingmannanefnd verður falið að meta framkvæmd útlendingalaga og eftir atvikum endurskoða þau.

mbl.is