Selja jafnvel lyfin sín

Fleiri börn á Íslandi fá ávísað örvandi lyfjum en annars …
Fleiri börn á Íslandi fá ávísað örvandi lyfjum en annars staðar og eins er algengara meðal íslenskra barna enn annarra að selja lyfin sín. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Tæplega 18% þeirra barna í 10. bekk sem hafa fengið ávísað örvandi lyfjum hafa dreift lyfjunum til annarra, samkvæmt nýrri rannsókn. Þetta er mun hærra hlutfall en sést í öðrum löndum en eins er mun hærra hlutfall barna hér sem fær ávísað slíkum lyfjum en annars staðar. 

Gísli Kort Kristófersson, lektor í geðhjúkrunarfræði við heilbrigðisvísindasvið Háskólans á Akureyri, er einn þeirra sem vann að rannsókninni. Hann segir ástæðu til þess að hafa áhyggjur af þessu því slíkt lyfjaflakk getur haft alvarlegar afleiðingar.

Ekki bara að þeir sem eiga að taka lyfin séu ekki að því og þar að leiðandi ekki að fá þá meðferð sem þeim er ætlað, heldur einnig getur fylgt þessu áhætta fyrir þá sem taka inn lyfin. Þetta skapi áhættu á fíkn hjá þeim.

Fjallað er um rannsóknina í Læknablaðinu sem kom út í dag. Alls tóku þátt í könnuninni 2324 unglingar í 10. bekk, þar af 1144 drengir og 1180 stúlkur. Af þeim svöruðu 2306 (99,2%) spurningunni: „Hefur þú einhvern tíma tekið inn örvandi lyf (eins og Rítalín, Rítalín uno, Concerta eða amfetamín) vegna þess að læknir sagði þér að taka þau?“

9% hafa tekið inn örvandi lyf

Af þeim sem svöruðu sögðust 2100 (91,1%) aldrei hafa tekið inn slík lyf. Strákar voru rúmlega helmingi líklegri til að hafa fengið örvandi lyf uppáskrifuð en stúlkur, 12,7% á móti 5,5%.

Alls kváðust 206 einstaklingar hafa fengið örvandi lyf uppáskrifuð frá lækni og af þeim höfðu 36 (17,5%) dreift lyfjunum sínum til annarra. Algengast var að unglingarnir dreifðu lyfjunum sínum með því að selja þau (6,3%). Um 2,4% þeirra sem fengu örvandi lyf höfðu dreift þeim á alla þá vegu sem um var spurt og sama hlutfall sagðist aldrei hafa tekið lyfin sjálf en aðeins dreift þeim til annarra.

Mikilvægt að fylgjast með lyfjanotkun barna

Gísli segir að þetta sýni með óyggjandi hætti mikilvægi þess að foreldrar fylgist grannt með því að börn þeirra taki lyfin á réttan hátt. Skoðað var hvort þeir nemendur sem dreifðu örvandi lyfjunum sínum skæru sig með einhverjum hætti frá öðrum þátttakendum með tilliti til kyns, tilfinningalegra tengsla við foreldra og annarrar vímuefnanotkunar.

Í þeim tilgangi var hópnum skipt í þrennt:

1) Þeir sem ekki höfðu fengið uppáskrifuð örvandi lyf,

2) Þeir sem höfðu fengið örvandi lyf en ekki dreift þeim til annarra 

3) Þeir sem höfðu fengið örvandi lyf og dreift þeim með því að selja, skipta eða gefa.

Í ljós kom talsverður munur sem í öllum tilfellum reyndist marktækur. 4,9% þeirra unglinga sem aldrei höfðu fengið örvandi lyf höfðu reykt á síðustu 30 dögum. Hins vegar höfðu 11,6% þeirra sem höfðu fengið örvandi lyf án þess að dreifa þeim reykt á þessu tímabili og 66,7% þeirra sem höfðu dreift.

Þannig sést að þeir unglingar sem höfðu fengið örvandi lyf frá lækni án þess að dreifa þeim til annarra, voru 2-5 sinnum líklegri en þeir sem aldrei höfðu fengið slík lyf til þess að hafa reykt eða drukkið á síðastliðnum 30 dögum eða einhvern tíma á ævi sinni prófað kannabis, E-töflur, amfetamín eða að sniffa.

Þessir nemendur voru einnig nær tvöfalt líklegri til þess að segjast fá lítinn tilfinningalegan stuðning frá foreldrum. Hlutfallslega fleiri strákar tilheyrðu einnig þessum hóp.

Fleiri strákar en stelpur stunda lyfjaflakk en mun fleiri strákar …
Fleiri strákar en stelpur stunda lyfjaflakk en mun fleiri strákar en stelpur fá ávísað örvandi lyfjum. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Miklu líklegri til að nota áfengi, tóbak og önnur vímuefni

Miklu meiri munur sást hins vegar á þeim unglingum sem sögðust hafa dreift örvandi lyfjunum sínum. Miðað við þá sem aldrei höfðu fengið slík lyf voru þeir sem stundað höfðu lyfjaflakk 7-35 sinnum líklegri til þess að hafa notað áfengi, tóbak eða önnur vímuefni og þeir voru 6 sinnum líklegri til þess að segjast fá lítinn tilfinningalegan stuðning frá foreldrum.

Að sögn Gísla eru lyf sem þessi eftirsóknarverð sem vímugjafi og bandarískar rannsóknir sýni að í einhverjum tilvikum eru börn þvinguð, beitt nauðung, til þess að afhenda öðrum lyf sín.

Samkvæmt niðurstöðum þessarar könnunar á nemendum 10. bekkjar á Íslandi, sögðust um 9% þeirra fá örvandi lyf gegn lyfseðli. Þetta passar vel við innlendar tölur um sölu örvandi lyfja en er eilítið hærra en það sem faraldsfræðilegar rannsóknir gefa til kynna að sé tíðni ADHD í 15 ára gömlum börnum, segir í greininni sem þau Gísli, Ársæll Arnarson, prófessor í tómstunda- og félagsmálafræði, Menntavísindasvið, Háskóli Íslands. Guðmundur Torfi Heimisson, lektor í sálfræði, hug- og félagsvísindasvið, Háskólinn á Akureyri og Dagbjörg Sigurðardóttir, barna- og unglingageðlæknir, Landspítali-háskólasjúkrahús, rita í Læknablaðið.

Jafnvel þó miðað væri við hæstu hugsanlegu tíðni ADHD í börnum sem fram hefur komið í faraldsfræðilegum rannsóknum, má líta svo á að verið sé að meðhöndla nær öll 15 ára börn sem hafa þessa röskun með örvandi lyfjum hér á landi. Það gefur annaðhvort til kynna afskaplega skilvirkt greiningar- og meðferðarkerfi ADHD í börnum á Íslandi eða mögulega ofgreiningu og ofmeðhöndlun, eftir því hvernig á það er litið.

Um það bil 13% prósent drengja í 10. bekk var ávísað örvandi lyfjum og rúmlega 5% stúlkna, en þessi kynjamunur er í samræmi við niðurstöður erlendra rannsókna á tíðni ADHD á þessu aldursbili, þó vissulega megi finna bæði hærri og lægri tölur eftir því hvaða aðferðafræði er beitt hverju sinni,“ segir í greininni.

Þau benda á að hafa verði í huga að miklu færri stúlkur fá örvandi lyf gegn lyfseðli en drengir, þannig að prósentutala stúlkna er fljótari að breytast en hjá drengjunum, en mun fleiri piltar en stúlkur hafa stundað lyfjaflakk. 

Algengasta lyfið við ADHD er rítalín og ritalin uno
Algengasta lyfið við ADHD er rítalín og ritalin uno mbl.is/Friðrik Tryggvason

Þau segja niðurstöðina gefa tilefni til áframhaldandi áherslu á að styrkja tengsl foreldra og barna í æskulýðs- og forvarnarstarfi, sérlega hjá þeim börnum sem glíma við ADHD.

„Einnig að foreldrar, forráðamenn, kennarar og aðrir sem hafa umsjón með börnum á slíkum lyfjum séu vakandi fyrir þeim möguleika að barni sé ekki treystandi til að bera sjálft ábyrgð á lyfjunum vegna freistingar um skjótfenginn gróða, félagslegs þrýstings eða jafnvel þjófnaðar og hótana frá utanaðkomandi aðilum,“ segir í greininni.

Gísli tekur fram að niðurstöður könnunar megi ekki nota til þess að gera lítið úr þeirri hjálp sem örvandi lyf geta veitt börnum sem glíma við ADHD á þessum aldri. Á sama tíma sýna niðurstöðurnar fram á mikilvægi þess að vandað sé til verka hvað varðar aðbúnað og umgjörð slíkar notkunar, til dæmis aðgengi barna að lyfjunum, sjálfstæði þeirra til að skammta sér sjálf lyfin og notkun reglulegra þvagprufa til að sannreyna að barn sé að taka lyfið ef grunur leikur á lyfjaflakki.

„ Ljóst er að til mikils er að vinna, bæði fyrir barnið sjálft og þá sem á ólöglegan hátt komast yfir og neyta lyfjanna sem um ræðir,“ segir í greininni sem birtist í Læknablaðinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert