Tekjur aukast en skuldir hækka

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Í nótt var fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar samþykkt af meirihluta borgarstjórnar. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að svigrúmi, sem hafi myndast í fyrra og sé til staðar í ár varðandi rekstur borgarinnar, sé varið í aukin framlög til leik- og grunnskóla, auk húsnæðismála og velferðarþjónustu. Tekjur borgarinnar aukast talsvert, en auk þess munu skuldir A-hluta borgarinnar hækka um 7,6 milljarða milli ára.

Miklar framkvæmdir fram undan

Kemur fram að stærstu verkefnin séu nú í Úlfarsárdal þar sem skóli, íþróttahús og sundlaug muni rísa. Þá verði byggt íþróttahús, knatthús og fimleikahús í Breiðholti á næstu árum. Einnig að aukin framlög fari til viðhalds á húsnæði og öðrum eignum borgarinnar árið 2018 og til næstu ára.

Kostnaðarsamasti málaflokkur borgarinnar er skóla- og frístundasvið, en kostnaður borgarinnar vegna hans er 47,8 milljarðar á næsta ári og hækkar um tæpa tvo milljarða miðað við útkomuspána. Þá er gert ráð fyrir að verja 22,5 milljörðum í velferðarsvið, en á þessu ári er áætlað að kostnaðurinn verði 21,8 milljarðar. Áætlað er að verja 7,7 milljörðum í íþrótta- og tómstundasvið.

Tekjur aukast talsvert milli ára sem og útgjöld

Gert er ráð fyrir að tekjur Reykjavíkurborgar aukist um 5,7% miðað við útkomuspá 2017 og verði samtals 116,9 milljarðar miðað við 109,8 milljarða í ár, en mesta hækkunin er í formi hærri skatttekna sem gert er ráð fyrir að verði 90,8 milljarðar í stað 83 milljarða á þessu ári.

Þá er gert ráð fyrir að laun og launatengd gjöld hækki um tæplega 5 milljarða milli ára og verði 76,3 milljarðar. Nemur hækkunin 6,7% frá útkomuspá þessa árs. Annar rekstrarkostnaður hækkar einnig og nemur á áætlun 2018 55,3 milljörðum í stað 50 í útkomuspánni. Á móti er breyting vegna lífeyrisskuldbindinga mun lægri en í útkomuspánni. 5,4 milljarðar á næsta ári á móti 11 milljörðum á þessu ári.

Skuldir hækka um 7,6 milljarða

Áformað er að samstæða A- og B-hluta borgarinnar skili 17,1 milljarðs rekstrarhagnaði á næsta ári, en í ár gerir útkomuspáin ráð fyrir að afgangurinn sé 28 milljarðar.

Skuldir A-hluta borgarinnar eru samkvæmt útkomuspá um 100 milljarðar. Gert er ráð fyrir að þær verði um 107,6 milljarðar á næsta ári samkvæmt fjárhagsáætluninni.

Skuldir á hvern íbúa rúmlega 2 milljónir

Þegar rekstrartölur borgarinnar eru skoðaðar á hvern íbúa má sjá að áætlað er að tekjur í formi skatttekna og frá jöfnunarsjóði nema 788 þúsund krónum á næsta ári samanborið við 727 þúsund á þessu ári. Þá hækka þjónustutekjur lítillega, úr 630 þúsund í 639 þúsund. Rekstrargjöld og fjármagnsliðir nema hins vegar 1.322 þúsund krónum á hvern íbúa. Skuldbindingar eru 362 þúsund á hvern íbúa og skuldir rúmlega 2 milljónir.

Íbúafjöldi í Reykjavík er í ár 123.923 samkvæmt fjárhagsáætluninni en verður 124.509 á næsta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert