Snýr að óbreyttu aftur til starfa

Ari Matthíasson Þjóðleikhússtjóri.
Ari Matthíasson Þjóðleikhússtjóri. mbl.is/Árni Sæberg

Leikarinn Atli Rafn Sigurðarson mun að óbreyttu snúa aftur til starfa hjá Þjóðleikhúsinu 20. ágúst á næsta ári. Þetta segir Ari Matthíasson þjóðleikhússtjóri.

„Maðurinn óskaði eftir launalausu leyfi til að sinna störfum í öðru leikhúsi. Leyfið var veitt og hann kemur aftur til starfa nema málefnalegar ástæður liggi fyrir til þess að ég neiti því,“ segir Ari.

Aðspurður kveðst hann ekkert vita um þær ásakanir sem urðu til þess að Atla Rafni var vikið frá störfum í Borgarleikhúsinu. „Auðvitað hefur maður af þessu djúpar áhyggjur í öllu tilliti. Maður sem er í láni og er rekinn fyrir eitthvað, auðvitað hnykkir manni við. Ég mun kanna málið eftir því sem efni og aðstæður leyfa og komast að einhverri niðurstöðu,“ segir hann.

„Mér sem forstöðumanni ber skylda til þess að tryggja öryggi starfsmanna og réttindi, þar með talið þeirra starfsmanna sem kvartanir beinast gegn. Mér ber skylda til þess að rannsaka málið og komast að sjálfstæðri niðurstöðu. Þangað til einhverjar upplýsingar berast mér er ég jafnupplýstur og hver annar.“

Atli Rafn Sigurðarson.
Atli Rafn Sigurðarson. mbl.is/Árni Sæberg

Hann nefnir að allar kvartanir séu teknar alvarlega og þeim sem kvarta sé sýnd nærgætni og þeir styrktir og studdir í hvívetna en engar kvartanir hafi borist vegna starfa Atla Rafns hjá Þjóðleikhúsinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert