Þannig syngur vináttan!

Þorgerður Ingólfsdóttir kórstjóri.
Þorgerður Ingólfsdóttir kórstjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Eftir allan þennan tíma er mér efst í huga mikið þakklæti og gleði yfir því að hafa fengið að lifa í þessu samfélagi og samhljómi. Ekki bara í tónlistarlegri merkingu, heldur líka vegna þess vinabands og elsku sem ég hef verið umlukin alla ævi. Það hefur alltaf verið þessi kæti og þetta unga og ferska líf í kringum mig sem gerir okkur öllum svo gott. Það er yndislegt að hafa getað lagt eitthvað af mörkum og ég er afar þakklát fyrir að hafa getað með mínu unga, duglega fólki búið til kór sem stenst faglegan samanburð við aðra kóra, ekki bara hér heima, heldur líka í fjölmörgum öðrum löndum.“

Þetta segir Þorgerður Ingólfsdóttir sem nýlega hætti sem kórstjóri Kórs Menntaskólans við Hamrahlíð eftir fimmtíu ára starf. 

„Það er ekki þar með sagt að þetta hafi alltaf verið dans á rósum. Starfið hefur verið krefjandi,“ heldur hún áfram. „Það er löng leið frá því að taka við nýju tónverki og lesa nóturnar þar til kórinn stendur á tónleikapalli og fær klapp. Að ekki sé talað um fjáröflunina fyrir tónleikaferðirnar okkar; oft höfum við þurft að safna svo háum upphæðum að við höfum verið að sligast. Margt hefur líka breyst á þessum fimmtíu árum. Unga fólkið stundaði ekki vinnu með námi, það var ekki sími í hverjum lófa og ekki var hægt að senda sms til að boða krakkana á kóræfingar. Þegar við fórum í fyrstu söngferðina hafði enginn kórfélagi komið til útlanda. Núna fara sumir allt upp í sex helgarferðir – á ári!“

Og alls staðar er Þorgerður spurð um það sama: Tóninn. „Já, það heillast margir af honum, bæði fagmenn og leikmenn í söng. Ég á ekki eina, beina skýringu en svara oft: Þannig syngur vináttan! Strengurinn milli kórfélaga hefur alltaf verið sterkur og ófáir eignast þarna vini fyrir lífstíð og jafnvel lifsförunauta. Þetta fólk tekur virkan þátt í gleði og sorgum félaga sinna og þessi manneskjulega samkennd gerir listflutning oft svo sterkan og eftirminnilegan.“ 

Þorgerður verður eitthvað viðloðandi starf Kórs MH nú um hátíðirnar, enda hefðirnar margar, og hún stjórnar eldri kórnum sínum áfram, Hamrahlíðarkórnum. „Ég er hvergi nærri hætt,“ segir hún brosandi, „og hef aðgang að syngjandi fólki úti um allan heim.“

„Lífið er kóræfing fyrir Þorgerði,“ bætir eiginmaður hennar, Knut Ødegård, við. „Þegar hún kemur heim veit ég alltaf hvort gengið hefur vel eða illa á æfingu dagsins – það heyrist á fótatakinu,“ segir hann og brosir. 

Ég er og verð áfram tónlistarmaður meðan ég dreg andann,“ segir Þorgerður. „Hvernig ég útfæri það hér eftir kemur í ljós. Ég get ekki hugsað mér lífið án tónlistar og mun hafa yndi af henni áfram, syngjandi, stjórnandi, hlustandi og njótandi. Tónlistin er ein af stoðunum sem hefur gert mig að því sem ég er.“ 

Nánar er rætt við Þorgerði í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert