Ferðast um heiminn og kynnir snjóskauta

Fyrir nokkrum árum fékk Ingi Freyr Sveinbjörnsson gefins svokallaða Sled dogs-snjóskauta sem höfðu verið framleiddir í skamman tíma á tíunda áratugnum en náðu aldrei vinsældum. Hann heillaðist hins vegar strax af skautunum og lærði að leika ýmsar listir. Síðar kom í ljós að hann hafði náð færni sem engum öðrum hafði tekist. Í dag er hann heimsmeistari á skautunum og hefur ferðast um allan heim til að bæði kynna skautana og kenna fólki að nota þá. Hann er orðinn andlit vörumerkisins, en það voru einmitt nýir eigendur þess sem uppgötvuðu hæfileika Inga fyrir um fimm árum og fengu hann til liðs við sig að koma Sled dogs-skautunum á kortið.

Skautarnir eru í raun sambærilegir línuskautum, en notaðir í snjó. Um er að ræða skíðaklossa þar sem skíðið er fast við sólann – fyrirferðarlítið og þægilegt.

Ingi er nýkominn heim frá Asíu, þar sem hann heimsótti bæði Kína og Suður-Kóreu en snjóskautarnir hafa náð miklum vinsældum þar og hópurinn sem iðkar sportið stækkar hratt. „Þeir eru margir hverjir mjög góðir þar og þetta er orðið mjög stórt en þeir þurfa alltaf að láta ýta á sig til að ganga lengra og verða enn þá betri. Þeir vilja ekki reyna hlutina upp á eigin spýtur og þurfa kennslu. Þá vilja þeir fá mig til að hjálpa sér við að stökkva og fleira. Ég er aðallega í svona freestyle,“ segir Ingi en hann er heimsmeistari í freestyle á skautunum og á einnig heimsmetið í hraða. Heimsmeistaramót hafa verið haldin síðastliðin þrjú ár en það næsta verður haldið á Íslandi í mars og verður hluti af Iceland Wintergames sem fara fram í Hlíðarfjalli á Akureyri.

Ingi hefur tvisvar áður farið til Asíu að kynna skautana og vegna þess hve áhuginn er mikill var hann í þetta skipti beðinn um að fá fleiri með sér. Með Inga fóru því út Ísak Andri Bjarnason og Katrín Karítas Viðarsdóttir sem einnig hafa náð góðum tökum á snjóskautunum. „Þeir vildu fá fleiri sem eru lengra komnir og líka fá hana með til að sýna að þetta sé ekki bara strákasport. Hún er í raun eina stelpan sem ég veit um sem er að stökkva á skautunum. Alveg þrælflott.“

Kröfðust þess að fá Inga til liðs við sig

Ingi segir skautana fyrst hafa verið framleidda snemma á tíunda áratugnum en þá náðu þeir ekki miklu flugi og framleiðslunni var því hætt. „Mér var svo gefið svona par fyrir nokkrum árum sem ég fór að leika með, en ég var alltaf á snjóbrettinu. Þetta var mjög heillandi og ég fór að djöflast á þessu.“

Fyrir um fimm árum þegar skautarnir voru orðnir lélegir fór Ingi að kanna hvort einhvers staðar væri hægt að kaupa nýja. Hann komst þá að því að Norðmaður hafði keypt vörumerkið og heimasíða var komin í loftið. „Þeir sáu svo einhver Youtube-myndbönd frá mér þar sem ég var að leika mér uppi í Hlíðarfjalli og sögðu að það væri enginn í heiminum að gera það sem ég væri að gera og vildu endilega fá mig út. Sögðu að þeir yrðu eiginlega að fá mig með sér og ég er búinn að ferðast með þeim um heiminn síðan. Ég er eiginlega orðinn þeirra andlit. Ég er á öllum merkjum og ég er framan á kassanum  með skautunum. Þetta er orðið mjög náið samstarf okkar á milli.“

Stoppaður af aðdáenda úti á götu í Kóreu 

Hlutverk Inga í samstarfinu er að kynna skautana og kenna fólki að nota þá. Fyrst vantaði þá einfaldlega myndefni og Ingi var svo sannarlega maðurinn í það verkefni. „Við þvældust um alla Evrópu og mynduðum fyrir auglýsingar, tókum bæði myndbönd og ljósmyndir sem þeir settu á síðuna sína. Síðan hefur þetta bara undið upp á sig. Flestir í heiminum sem eru í þessum snjóskautum þeir vita orðið hver ég er. Það er alveg sama hvert þeir fara með mig, fólk þekkir mig alltaf. Þetta er orðið mjög skrýtið. Ég lenti í því í síðustu ferð, í Suður-Kóreu, að það var maður sem stoppaði mig úti á miðri götu því hann þekkti okkur. Hann stökk út úr bílnum sínum og varð að fá að hitta okkur.“

Ísak og Karítas eiga líka orðið aðdáendahóp í Asíu eftir ferðina, en Ingi fékk þær upplýsingar að í aðdáendahópnum í kringum þau væri um 2.000 manns. „Ég átti pínu erfitt með að trúa því,“ segir hann hlæjandi. „En við hittum fullt af fólki sem koma bara til að hitta okkur og renna sér með okkur. Maður fer til Húsavíkur og það þekkir mann enginn, en maður fer til Suður-Kóreu og er bara nokkur þekktur þar,“ segir hann kíminn

Starfaði við breskan raunveruleikaþátt 

Ingi hefur fengið ýmis verkefni í tengslum við skautana, en hann hefur meðal annars unnið við breska raunveruleikaþáttinn The Jump þar sem misfrægir einstaklingar keppa sín á milli í ýmiss konar vetraríþróttum. „Ég hef verið að þjálfa snjóskauta þar og fengið til mín nokkra fræga eins og Steve O úr Jackass, Robbie Fowler fótboltamann og fullt af tónlistarfólki, meðal annars Pussicat Dolls. Þannig þetta er búið að vera alveg ótrúlegt ævintýri.“

Hann segir töluverðan áhuga á skautunum á Íslandi og fann hann sérstaklega fyrir því í fyrra að áhuginn hafði aukist. Vandamálið er hins vegar hve fá pör af skautum eru til á hér á landi en flestir vilja prófa áður en þeir kaupa. „Ég á sjálfur nokkur pör og hef verið duglegur að lána fólki. Flestir sem fá lánað fara beint á netið og kaupa. Ég hef ekki leyft neinum að prófa sem hefur ekki skemmt sér vel. Það er mjög auðvelt að læra á þetta og tekur mann ekki nema þrjár ferðir að ná þessu. Þá getur maður farið að renna sér einn.“

Gaman að finna upp nýtt sport

Það sem heillar Inga hvað mest við snjóskautana er að þeir eru frekar nýir á markaðnum og því auðvelt að vera fyrstur til að leika einhverjar listir. „Ég er líka á snjóbretti og ef ég næ að gera eitthvað nýtt þar þá átta ég mig á því að þúsund aðrir voru búnir að gera þetta fyrir þremur árum. Fyrir mér er þetta að það er gaman að finna upp nýtt sport. Svo er maður líka rosalega frjáls á skautunum. Ef maður dettur þá er ekkert fyrir manni, maður flækir ekki lappirnar heldur rúllar bara, stendur upp og heldur áfram. Það er líka þægilegt að maður þarf bara að kaupa skautana, ekkert annað, þetta er því örugglega ódýrasta vetrarsportið sem hægt er að komast í. Þetta er öðruvísi.“ Þrátt fyrir að auðvelt sé að læra á skautana segir Ingi þó erfiðara að stökkva á þeim og lenda vegna þess hve flöturinn undir er lítill.

Hópurinn sem stundar skautana hér á landi er aðallega bundinn við Akureyri en Ingi veit þó af fleirum annars staðar á landinu. Hópurinn á Akureyri kynntist hins vegar á parkour-æfingum. „Við erum farin að samtvinna parkour og skautana og það hefur gengið rosa vel.“ Ingi segir það algjör forréttindi að fá að vera andlit Sled dogs-snjóskautanna, en vinnuveitandi hans á Akureyri sýnir ferðalögum hans mikinn skilning. „Að fá að ferðast um heiminn og stunda áhugamálið sitt er alveg ómetanlegt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert