Hélt upp á jólin á Dominos

Doddi var ánægður að komast heim til sín eftir jóladvölina …
Doddi var ánægður að komast heim til sín eftir jóladvölina á Domino's. Ljósmynd/Elísabet Kristjánsdóttir

Kötturinn Doddi eyddi jólunum á ansi sérkennilegum stað þetta árið, en hann hafði ekki skilað sér síðan hann fór að heiman að kvöldi 22. desember. Það var svo í nótt sem Elísabet Kristjánsdóttir fékk símtal frá móður sinni. Í ljós kom að Doddi hafði verið fastur inni á Dominos við Fjarðargötu í Hafnarfirði.

„Við vorum mjög áhyggjufull yfir því að eitthvað hefði komið fyrir hann. Ég var búin að auglýsa eftir honum á kattasíðum og fara út að leita að honum og allt en hvergi fannst Doddi,“ segir Elísabet.

Dvalarstaðurinn uppgötvaðist á Facebook

Það var svo í nótt, aðfaranótt 26. desember, sem athugull vegfarandi varð var við köttinn inni á staðnum og deildi uppgötvun sinni inni á facebookhópnum Kettir á Facebook, aðdáendur katta og allir dýravinir.

„Það vildi svo til að mamma mín var vakandi og hún fékk skilaboð frá frænda mínum sem hafði séð þetta á Facebook. Mamma hringir í mig og ég vakna klukkan þrjú við að einhver er að hringja í mig og mér náttúrlega krossbregður,“ segir Elísabet.

Hún dreif sig þá niður á Dominos, en hún býr aðeins nokkrum götum frá staðnum. „Þegar ég kom hafði öryggisvörðurinn hleypt honum út og hann hefur bara hlaupið beint heim. Það var fólk þarna á kattasíðunni sem hafði skrifað athugasemd og ætlaði að láta Securitas og lögregluna vita strax.“

Elísabet segir Dodda raunar vera kött systur sinnar, en hann er í hennar umsjá á meðan systir hennar býr erlendis. „Svo er svo fyndið að þau eiga annan kött sem týndist í Breiðholtinu fyrir ári en fannst svo í Kerlingarfjöllum.“

Doddi er kominn heim og hefur það náðugt undir jólatrénu.
Doddi er kominn heim og hefur það náðugt undir jólatrénu. Ljósmynd/Elísabet Kristjánsdóttir

Mögulega fengið pepperóní-jólamat

Lokað var á Dominos á aðfangadag og jóladag svo Doddi hefur að öllum líkindum verið fastur inni á staðnum síðan á Þorláksmessu.

„Hann hefur haldið upp á jólin á Dominos-pítsu, greyið. Við vitum ekkert hvaða usla hann hefur valdið inni á staðnum,“ segir Elísabet og hlær, og tekur undir það að eflaust þurfi að fara rækilega yfir allt á staðnum.

„Hann kom heim og fékk strax góðan mat, malaði hjá okkur og var rosalega góður og glaður. Ég veit ekki hvort hann hefur fengið pepperóní að éta eða eitthvað en allavega tók hann vel til matar síns þegar hann kom heim.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert