Dæmdur sekur fyrir manndráp af gáleysi

Hjólabátur við Jökulsárlón.
Hjólabátur við Jökulsárlón. mbl.is/Helgi Bjarnason

Karlmaður á þrítugsaldri var í dag dæmdur sekur fyrir manndráp af gáleysi og dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi vegna banaslyss sem varð við Jökulsárlón í ágúst 2015. Þá var maðurinn sviptur ökuréttindum í hálft ár. Farið hafði verið fram á 3 mánaða skilorðsbundinn dóm og 10 mánaða sviptingu ökuréttinda af hálfu ákæruvaldsins. 

Maðurinn var skipstjóri á hjólabát sem var bakkað yfir kanadíska konu við Jökulsárlón í ágúst 2015. Var hann ákærður fyrir „að hafa, síðdeg­is fimmtu­dag­inn 27. ág­úst, ekið hjóla­bátn­um Jaka SF-2223, sem er þiljað farþega­skip, aft­ur á ­bak frá farþegapalli og um malarpl­an norðan við þjón­ustu­bygg­ing­una við Jök­uls­ár­lón í sveit­ar­fé­lag­inu Hornafirði, án nægj­an­legr­ar aðgæslu þannig að hjóla­bát­ur­inn hafnaði á gang­andi veg­far­and­an­um, Shelagh D. Donov­an, f. 13. fe­brú­ar 1956, sem féll við og lenti und­ir hægra aft­ur­hjóli öku­tæk­is­ins með þeim af­leiðing­um að hún hlaut fjölá­verka og lést nær sam­stund­is.“

Shelagh Donov­an lét lífið við Jök­uls­ár­lón í slysinu.
Shelagh Donov­an lét lífið við Jök­uls­ár­lón í slysinu. Ljósmynd/Michael Boyd

Í skýrslu rann­sókn­ar­nefnd­ar sam­göngu­slysa kom fram að maður­inn hafði ekki rétt­indi til að stýra bátn­um. Þar seg­ir að bakk­mynda­vél, sem er í öll­um slík­um bát­um sem sigla á Jök­uls­ár­lóni, hafi verið biluð í bátn­um og svo hafi verið um nokk­urt skeið. Þá hafi hvorki skip­stjór­inn né ann­ar starfsmaður gengið úr skugga um að hættu­laust væri að aka aft­ur á bak.

Hjón­in voru í heim­sókn á Íslandi ásamt yngsta syni sín­um þegar slysið varð. Þau höfðu ferðast um með þyrlu og stóðu á plani við lónið og fylgd­ust með þyrlunni lenda þegar bátn­um var bakkað á þau. Son­ur­inn náði að stökkva frá bátn­um.

Við aðalmeðferð málsins sagðist maðurinn saklaus og í greinargerð hans með málinu kom fram að hann teldi kanadísku kon­una hafa sýnt af sér mikið gá­leysi, að sam­starfs­kona hans hefði ekki sinnt skyldu sinni og varað hann við og vinnu­veit­andi hefði borið ábyrgð á ófull­nægj­andi ör­yggisaðstæðum. Maðurinn var ekki viðstaddur dómsuppkvaðningu sem fór fram við Héraðsdóm Reykjavíkur, en aðalmeðferð málsins fór fram við Héraðsdóm Austurlands.

Slysið varð í ág­úst árið 2015 og stýrði maður­inn stór­um …
Slysið varð í ág­úst árið 2015 og stýrði maður­inn stór­um hjóla­bát og bakkaði hon­um á kanadíska fjöl­skyldu sem stóð á bíla­plan­inu við lónið. mbl.is/RAX
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert