Minni spurn eftir leiguhúsnæði

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Könnun meðal landsmanna, sem framkvæmd var í desember, bendir til þess að færri séu nú á leigumarkaði en í síðustu mælingu, sem var gerð þremur mánuðum áður eða í september. Marktækt færri sögðust leigja af einkaaðilum í desember, samanborið við september. Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs.

Báðar kannanir voru framkvæmdar af Zenter og var um netkönnun meðal könnunarhóps þeirra að ræða. Í báðum tilfellum var um 2.000-3.000 manna úrtak einstaklinga 18 ára og eldri að ræða og svarhlutfallið var 53%.

Tæplega 14% þjóðarinnar eru á leigumarkaði, en í september var hlutfallið 17%. „Þessar niðurstöður endurspeglast að einhverju leyti í opinberum tölum um leigumarkaðinn. Nýjustu tölur yfir fjölda þinglýstra leigusamninga sýna að í desember var 478 leigusamningum þinglýst á landinu öllu, sem er 102 samningum færra en þinglýst var í desember árið áður.

Yfir allt árið 2017 var 7.598 leigusamningum þinglýst á landinu öllu og fækkar þeim um 11,4% miðað við árið 2016 þegar tæplega 1.000 fleiri leigusamningum var þinglýst,“ segir í skýrslunni.

Í könnuninni var einnig spurt hvort svarendur teldu líklegt eða ekki að þeir yrðu á leigumarkaði eftir 6 mánuði. Niðurstöður leiddu í ljós að marktækt færri töldu líkur á að vera á leigumarkaði eftir hálft ár þegar spurt var í desember samanborið við þegar spurt var í september.

Í desember töldu 15% þjóðarinnar líklegt að þeir yrðu á leigumarkaði eftir 6 mánuði sem er nokkuð svipað hlutfall og var þar á þeim tíma. Mikill meirihluti þeirra sem eru nú þegar á leigumarkaði, eða 83%, telja líkur á að þeir verði þar áfram auk 18% þeirra sem búa í foreldrahúsum.Þetta er svipuð hlutfallsleg skipting og mældist í september. Þá töldu 90% þeirra sem voru á leigumarkaði líkur á að vera þar áfram auk 15% þeirra sem voru í foreldrahúsum.

„Þessar niðurstöður mætti túlka sem vísbendingu um að leigumarkaðurinn fari ef til vill áfram minnkandi. Fyrri kannanir benda til þess að meirihluti leigjenda vilji kaupa sér íbúð, eða 80%, samkvæmt rannsókn sem Íbúðalánasjóður framkvæmdi meðal leigjenda síðastliðið haust,“ segir enn fremur.

Einnig var spurt út í áform um væntanleg kaup á fasteignum og þar mældist engin marktæk breyting á niðurstöðum milli september og desember. Bæði í september og desember töldu 6% þjóðarinnar líklegt að þeir myndu kaupa fasteign á næstu 6 mánuðum. Um 11% þeirra sem voru á leigumarkaði töldu öruggt eða líklegt að þeir myndu kaupa húsnæði næsta hálfa árið og 6% húsnæðiseigenda töldu líkur á að þeir keyptu fasteign næsta hálfa árið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert