Uppsögnin tengd #metoo-byltingunni

Jón Páll Eyjólfsson, leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar.
Jón Páll Eyjólfsson, leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Fyrirvaralaus uppsögn Jóns Páls Eyjólfssonar úr stóli leikhússtjóra Leikfélags Akureyrar tengist #metoo-byltingunni og máli sem kom upp fyrir um áratug. Þetta staðfestir Jón Páll í samtali við mbl.is. 

Jón segir að málið snúist um atburð sem gerðist fyrir áratug og var ekki innan leikhússins. Fyrir fimm árum hafi, að frumkvæði þolandans, verið unnið að sátt í málinu og stefnt hafi verið að henni þegar #metoo-byltingin fór í gang. Segist hann hafa gert framkvæmdastjóra Menningarfélags Akureyrar grein fyrir stöðunni strax. Hann vill þó ekki nánar tjá sig um málið.

Fram kom í dag að Jón Páll og stjórn Menningarfélagsins hafi komist að samkomulagi um að hann myndi hætta tafarlaust, en áður hafði hann tilkynnt að hann hefði sagt sjálfur upp. Var samkomulag um að hann myndi vinna út leikhúsárið. Það hefur hins vegar breyst núna.

Þuríður Helga Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Menningarfélags Akureyrar, segist ekki neita því að uppsögn Jóns Páls tengist #metoo-byltingunni.

Þuríður segir að þessi ákvörðun hafi verið tekin þar sem ekki ríkti lengur traust um störf hans hjá félaginu. RÚV greinir frá því að uppsögnin tengist #metoo-byltingunni og spurð um það atriði segist Þuríður ekki neita því. Hún ætli hins vegar ekki að tjá sig nánar um málið að svo stöddu.

mbl.is