Hlutfall bálfara komið í 36% á landsvísu

Úr Gufuneskirkjugarði í Reykjavík. Sífellt fleiri kjósa bálfarir.
Úr Gufuneskirkjugarði í Reykjavík. Sífellt fleiri kjósa bálfarir. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Á árinu 2017 létust 2.201 einstaklingur, búsettir á Íslandi og auk þess voru 66 einstaklingar, sem búsettir voru utan Íslands, fluttir til Íslands og grafnir hér heima. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Kirkjugarðasambandi Íslands.

Önnur hver útför á höfuðborgarsvæðinu er bálför, en hlutfall bálfara af heildartölu látinna, sem voru með búsetu á Íslandi, er komið í um 36% á landsvísu. Alls voru bálfarir 789 talsins á síðasta ári.

Legstaðaskrá í miðlægum gagnagrunni

Kirkjugarðasamband Íslands heldur úti vefsíðunni gardur.is. Á vefnum er legstaðaskrá, þar sem finna má alla einstaklinga sem jarðsettir hafa verið hér á landi frá og með árinu 2000.  Á síðunni má einnig finna upplýsingar um legstað þeirra látnu einstaklinga sem áður höfðu verið skráðir í legstaðaskrár hinna ýmsu kirkjugarða landsins.

Þessar legstaðaskrár, sem ná mislangt aftur, hafa verið slegnar inn á gardur.is og hafa verið aðgengilegar á hinni miðlægu legstaðaskrá.  Margar legstaðaskrár fyrir árið 2000 hafa því miður glatast og eru upplýsingar frá þeim kirkjugörðum því bundnar við árið 2000 og áfram, að því er segir í fréttatilkynningunni. 

Á gardur.is má einnig finna ævidrög og myndir af mörgum einstaklingum.  Í þeim tilfellum hafa ættingjar látið skrá stuttan æviferil og sett inn mynd eða myndir í gagnasafnið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert