Án ökuréttinda, ölvaður og stakk af

mbl.is/Hjörtur

Ökumaður og tveir farþegar í bifreið sem hann ók reyndu að forða sér á hlaupum undan lögreglunni á Suðurnesjum í vikunni þegar stöðva átti bifreiðina við hefðbundið umferðareftirlit. Skömmu síðar kom í ljós að bifreiðin var stolin, ökumaðurinn var án réttinda vegna ungs aldurs og þar að auki ölvaður. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum.

Þegar lögreglumenn gáfu ökumanni, sem ók á móti lögreglubifreiðinni, merki um að stöðva aksturinn gaf hann í, ók upp á kant og fram hjá lögreglubílnum. Var þá hafin eftirför en bifreiðin hvarf sjónum lögreglu. Skömmu síðar sáust þrjár manneskjur á harðaspretti. Þeim voru gefin fyrirmæli um að stoppa en því var ekki sinnt. Lögreglumenn hlupu fólkið þá uppi. Var þar kominn ökumaðurinn ásamt farþegunum tveimur.

Í ljós kom að bifreiðin sem hann ók var stolin. Að auki var hann án ökuréttinda vegna ungs aldurs og játaði ölvunarakstur. Haft var samband við aðstandendur piltsins og jafnframt haft samband við þar til bæra barnavernd á höfuðborgarsvæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert