WOW dæmt til að greiða farþegum bætur

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag WOW air til að greiða …
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag WOW air til að greiða tveimur farþegum sitt hvorar 47 þúsund krónurnar í bætur vegna seinkunar á flugi félagsins í desember 2016.

Flugfélagið WOW air var í dag dæmt í Héraðsdómi Reykjavíkur til að greiða tveimur farþegum bætur vegna seinkunar sem varð á flugi félagsins frá Lundúnum til Keflavíkurflugvallar í desember 2016.

Seinkunin varð alls fjórir tímar, en vélin átti að lenda á Keflavíkurflugvelli rétt fyrir klukkan hálftólf að kvöldi en seinkaði til klukkan 3:23 um nóttina.

Farþegarnir tveir byggðu kröfu sína á því að óumdeilt væri að seinkun varð á fluginu til Íslands 19. desember 2016. Þau kröfðust bóta frá flugfélaginu vegna seinkunarinnar og vísuðu til reglna Evrópusambandsins um bætru vegna tafa og aflýsingar á flugi.

Vísuðu til keðjuverkandi áhrifa

Forsvarsmenn WOW air vísuðu kröfunni á bug og sögðu meðal annars að meginástæða seinkunarinnar væri snjór og ísing á Keflavíkurflugvelli um morguninn. Í rökstuðningi þeirra kom meðal annars fram að sama flugvél hefði farið í þrjár ferðir þennan dag, fyrst milli Bandaríkjanna og Íslands, síðan til Dyflinnar í Írlandi og loks til Lundúna.

Deildarstjóri flugumsjónar hjá WOW air sagði að smávægileg seinkun hefði orðið vegna komu vélarinnar frá Bandaríkjunum. Þá seinkun hegði verið hægt að leiðrétta ef ekki hefði komið upp snjókoma og ísing líkt og raunin var þennan dag. Afísa hefði þurft allar flugvélar og flöskuháls myndast í brottförum frá Keflavík. Flugvélin tafðist svo líka í flugi sínu til Dyflinnar áður en hægt var að fljúga vélinni til Lundúna. Um keðjuverkandi áhrif hefði því verið að ræða.

WOW air hefði átt að bregðast við

Dómari hafnaði rökum flugfélagsins. Í rökstuðningi kemur meðal annars fram að óviðráðanlegar aðstæður sem valda seinkun flugs valdi því ekki sjálfkrafa að ekki sé hægt að koma í veg fyrir síðari seinkanir af sömu orsökum. Þannig sé flugrekanda fært að bregðast við aðstæðum sem voru óviðráðanlegar í fyrsta fluginu og koma í veg fyrir að þær leiði til seinkunar eða aflýsingar þeirra flugferða sem á eftir koma.

Í dómnum kemur jafnframt fram að dómarinn telur að fulltrúar WOW air hafi ekki sýnt fram á að gripið hafi verið til neinna sérstakra ráðstafana til að tryggja að seinkunin um morguninn hefði ekki áhrif á áætlun Lundúnaflugsins um kvöldið.

Tæpar 50 þúsund krónur á mann

Dómari dæmdi WOW air til að greiða farþegunum tveimur sínar 47 þúsund krónurnar hvorum í bætur. Þar að auki þarf flugfélagið að greiða 1,1 milljónar króna málskostnað farþeganna.

Samkvæmt upplýsingum frá Ómari R. Valdimarssyni, lögmanni farþeganna, er líklegt að dómurinn hafi áhrif á stöðu fleiri farþega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert