Kalt vetrarveður í kortunum

Vegurinn milli Súðavíkur og Ísafjarðar er áfram lokaður vegna snjóflóðahættu.
Vegurinn milli Súðavíkur og Ísafjarðar er áfram lokaður vegna snjóflóðahættu. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Vind tekur að lægja í kvöld og nótt um mestallt land, að undanskildum norðanverðum Vestfjörðum. Mikið hvassviðri hefur verið norðvestan- og vestanlands í dag og þá mældist meðalvindur á Mosfellsheiði 20 metrar á sekúndu í dag.

Frétt mbl.is: Mosfellsheiðinni lokað

Haraldur Eiríksson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir í samtali við mbl.is að búast megi við ágætisveðri um mestallt land á morgun. „Nema það er nokkuð hvass vindur og snjókoma á Vestfjörðum, einkum norðan til. Annars staðar er þetta stillt og kalt veður.“  

Mesta hvassviðrið ætti að ganga niður í kvöld fyrir norðan, en áfram verður strengur á Vestfjörðum. Óvissustig vegna snjóðflóða er enn í gildi á norðanverðum Vestfjörðum og verður væntanlega áfram í nótt. Veg­ur­inn um Súðavík­ur­hlíð er lokaður vegna snjóflóðahættu og verður áfram lokaður í nótt. 

Vetrarástand á landinu

„Á fimmtudag er norðaustanátt með éljum á Norður- og Austurlandi og bjart og þurrt hérna suðvestan til,“ segir Haraldur. Á föstudag tekur svo ákveðin norðanátt við með éljum eða jafnvel snjókomu fyrir norðan. Áfram verður bjart og þurrt fyrir sunnan.

Haraldur segir að vetrarástand sé nú á landinu og að kalt verði næstu daga. „Við erum í frosti og sjáum víða tveggja stafa tölur inn til landsins. Það er ekkert óvanalegur kuldi, þetta er bara rólegt vetrarveður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert